Tilgangur
GLEYM MÉR EI STYRKTARFÉLAG ER TIL STAÐAR FYRIR ÞAU SEM MISSA Á MEÐGÖNGU OG Í/EFTIR FÆÐINGU. TILGANGUR FÉLAGSINS ER AÐ STYRKJA MÁLEFNI TENGT MISSI BARNA SVO AÐ LÍTIL LJÓS FÁI AÐ LIFA ÁFRAM Í MINNINGUNNI.
Stofnun GME
Anna Lísa Björnsdóttir, Þórunn Pálsdóttir og Hrafnhildur Hafsteinsdóttir stofnuðu Gleym mér ei haustið 2013. Sameiginleg reynsla þeirra af missi á meðgöngu færði þær saman með það að markmiði að styðja betur við foreldra sem missa á meðgöngu og í/eftir fæðingu.
Stjórn
Hólmfríður Anna Baldursdóttir
Sigrún Kristínar- Valsdóttir
Bjarndís Helga Blöndal
Kolbrún Stefánsdóttir
Steinlaug Högnadóttir
Harpa Rún Helgadóttir
Ragnhildur Helga Hannesdóttir
Starfsfólk
Kolbrún Tómasdóttir
Helstu verkefni
Hagsmunagæsla
Fræðsla og jafningjastuðningur í sorgarúrvinnslu
Stuðningur við foreldra þegar missir á sér stað
Tímalína
2023
Gleym mér ei skipulagði stóra ráðstefnu um um missi á meðgöngu og í/eftir fæðingu fyrir fagaðila. Um 120 manns sóttu ráðstefnuna og tugir horfðu á í streymi, en þetta var í fyrsta sinn sem svo margir fagaðilar í heilbrigðis- og félagsþjónustunni komu sama í kringum þetta málefni. Íslenskir og erlendir sérfræðingar, sem og einstaklingar með reynslu af meðgöngumissi, komu fram.
Gleym mér ei hélt fjórar Samverustundir í september og október til að taka utan um hópa eins og þá sem þurfa að binda enda á meðgöngu vegna fósturgalla, feður, fólk sem hefur upplifað missi í gamla daga, og þá sem hafa misst undir 12 vikna meðgöngu.
Gleym mér ei heldur áfram að útvega Landspítala Háskólasjúkrahúsi Minningarkassa og klæði á andvana fædd börn.
Gleym mér ei vinnur með heilsugæslunni til að bæta upplýsingagjöf og umgjörð innan kerfisins um barnsmissi á meðgöngu.
Minningarstund Gleym mér ei á alþjóðlegum degi til að minnast barna sem fæðast andvana eða í/eftir fæðingu er haldin ár hvert þann 15. október, og er sérstaklega vegleg á tíunda afmælisári Gleym mér ei.
2022
Bæklingarnir Að Verða Foreldri og Þegar gleðin breytist í sorg: Snemmubúinn fósturmissir voru gefnir út.
Myndbönd með reynslusögum einstaklinga og foreldra voru framleidd og gerð aðgengileg á YouTube og á visir.is.
2021
Gleym mér ei heldur áfram milligöngu um að sauma klæði og öskjur úr brúðarkjólum og gefur á fæðingardeildir landsins eftir þörfum.
Bæklingurinn Þegar gleðin breytist í sorg er endurútgefinn í samvinnu við Landspítala Háskólasjúkrahús.
2020
Brúðarkjólar voru gefnir í verkefnið Englaklæði sem Jessica Leigh Andrésdóttir stóð fyrir. Þeir eru notaðir til að sauma lítil klæði fyrir börn sem dreift er á fæðingardeildir á landinu. Brúðarkjólarnir eru einnig notaðir til að sauma fallegar öskjur fyrir þau allra minnstu og til að klæða Minningarkassana að innan.
Bæklingurinn Þegar gleðin breytist í sorg er endurútgefinn í samvinnu við Landspítala Háskólasjúkrahús.
2019
Árið 2019 varð Gleym mér ei einn af stofnendum Sorgarmiðstöðvarinnar, en hún miðar að því að bæta þjónustu og stuðning við syrgjendur og þá sem vinna að velferð þeirra. Síðan þá hefur Gleym mér ei átt aðstöðu í Lífsgæðasetrinu í Hafnarfirði þar sem nú eru skipulögð ráðgjafasamtöl og stuðningshópar fyrir foreldra sem upplifa missi á meðgöngu.
Gleym mér ei stóð fyrir fræðsluverkefni um minnkaðar hreyfingar á meðgöngu, Spörkin telja, í samstarfi við Ljósmæðrafélag Íslands, Heilsugæsluna og Landspítalann, með stuðningi frá heilbrigðisráðuneytinu og Landlæknisembættinu.
Barnabókin Lítið ljós eftir Særúnu Hlín Laufeyjardóttur kom út og fylgir hverjum Minningarkassa.
2018
Gleym mér ei gaf Útfararstofu Kirkjugarðanna kælivöggu sem ætluð er að veita foreldrum lengri tíma með barninu sínu. Vöggurnar gefa foreldrum tækifæri til að fara með barnið heim þar sem þau geta fengið til sín nánustu aðstandendur og átt kveðjustund í sínu umhverfi.
Gleym mér ei gaf meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítala svefnsófa, hægindastól og gardínur á Kristínarstofu, en stofan var opnuð eftir söfnun Kristínar Guðmundsdóttur, handboltakonu, sem missti tvíbura á meðgöngu árið 2011.
Gleym mér ei gaf tvær myndavélar á fæðingarvaktina og meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítala Háskólasjúkrahúss, en þær nýtast til að taka myndir af andvana börnum til minningar fyrir foreldrana.
Gleym mér ei gaf spítalanum föt á andvana fædd börn í þremur stærðum, en þegar brátt andlát ber að hafa foreldrar ekki tök á að kaupa lítil föt fyrir börnin sín og því er mikilvægt að spítalinn geti útvegað slíkt. Gleym mér ei gaf einnig barnavagn og burðarrúm til Landspítalans.
2017
Hugmyndin að Minningarkössunum varð til árið 2017 og þeir fyrstu voru gefnir á Landspítalann það ár. Minningarkassarnir hafa verið eitt af aðalverkefnum Gleym mér ei síðan þá.
Gleym mér ei færði meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítalans tvær fallegar bækur með myndum af duftreitnum fyrir fóstur í Fossvogskirkjugarði. Ljósmyndirnar tók Silja Rut Thorlacius sem einnig hannaði bókina.
2016
Sérstakur duftreitur fyrir fóstur var vígður í Fossvogskirkjugarði árið 1994. Gleym mér ei stóð fyrir endurbótum á reitnum í samstarfi við Kirkjugarða Reykjavíkur og hönnuðinn, Kristínu Maríu Sigþórsdóttur, og lauk þeim sumarið 2016.
Gleym mér ei gaf fæðingarvakt og meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítalans 11 öskjur til að gera lítil fótspor/handaför af andvana fæddum börnum. Foreldrar fengu afhendar öskjurnar til að skapa áþreifanlegar minningar með barninu sínu. Í dag eru slíkar öskjur hluti af Minningarkassa Gleym mér ei.
2015
Gleym mér ei færði meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítalans tvö sjúkrarúm og tvö náttborð í samstarfi við nemendur við Háskólann í Reykjavík.
2014
Gleym mér ei gaf Landspítala Háskólasjúkrahúsi, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi kælivöggur sem ætlað er að veita foreldrum lengri tíma með barninu sínu. Vöggurnar gefa foreldrum tækifæri til að fara með barnið heim þar sem þau geta fengið til sín nánustu aðstandendur og átt kveðjustund í sínu umhverfi. Fjöldi fólks lagði þessu lið og gerði að veruleika, ekki síst Minningarsjóður Magnúsar Brynjars Guðjónssonar sem gaf kælivögguna á Fjórðungssjúkrahúsið.
Englaforeldrar á Akranesi tóku þátt í söfnun fyrir kælivöggu sem gefin var á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
2013
Gleym mér ei var stofnað af þremur konum sem allar höfðu gengið í gegnum missi á meðgöngu og í/eftir fæðingu. Þörf fyrir slíkt félag var ekki aðeins mikilvæg til að auka skilning samfélagsins á sorginni sem fylgir slíkum missi, heldur einnig til að standa vörð um hagsmuni syrgjandi foreldra, og bæta umgjörð og stuðning innan heilbrigðis- og félagsþjónustunnar.
Samstarf
Árið 2019 tók Gleym mér ei þátt í stofnun Sorgarmiðstöðvar ásamt Nýrri Dögun og Ljónshjarta, en samtökin miða að því að styðja við fólk í sorg og sorgarúrvinnslu.
Starfsemin lýtur fyrst og fremst að faglegum stuðningi við syrgjendur, ráðgjöf, upplýsingaþjónustu og fræðslu. Sorgarmiðstöð er öllum opin.
Aurum hefur hannað sérstaka Gleym mér ei skartgripalínu og eru armbönd úr línunni gefin í Minningarkassa Gleym mér ei.
Í skartgripalínunni endurspeglast táknræn merking blómsins um að varðveita og hlúa að minningu barnsins, og sýna form þess bæði styrkleika og dulúð. Blöðin eru formfögur og mynda sterkan hjúp utan um bláan kristalsteininn sem táknar fyrirheit um líf sem aldrei varð og varðveislu minningar um það sem var.
Gleym mér ei skartgripirnir eru hannaðir í minningu allra þeirra barna sem eiga sér líf í hjarta ástvina sinna.
Skartgripalínan er til sölu hjá Aurum.
Gleym mér ei er aðili að International Stillbirth Alliance (ISA).
ISA eru alþjóðleg samtök sem miða að því að brúa bil milli samtaka og einstaklinga sem vinna að hagsmunum foreldra sem upplifa missi á meðgöngu og í/eftir fæðingu. Samtökin leggja einnig áherslu á fræðslu, þjálfun og rannsóknir til að draga úr meðgöngumissi.