Fræðsla
Bæklingar, tenglar, reynslusögur og upplýsingar um meðgöngumissi.
Bæklingar um meðgöngumissi
Reynslusögur
Lífið heldur áfram
Lífið getur verið dásamlegt undur og fer um mann mjúkum höndum … oftast. Ef þú lifir nógu lengi, þá færðu að kynnast því að lífið getur líka gefið manni kjaftshögg.
Sumt fólk jafnvel sleppur alveg við að fá högg meðan aðrir fá þau mörg. Lífið hefur oftast verið gott við mig. Þó hef ég fengið minn skammt af áföllum en það hefur verið í áföllum mínum sem ég hef unnið mína stærstu sigra. Þér finnst það kannski hljóma sem öfugmælavísa en það er öngvu að síður staðreynd.
Stærsta gleði allra hjóna eru börnin. Að fá lítið barn í hendurnar er svo mikið undur, svo mikið kraftaverk að engin orð ná utan um það.
Ég og ástin mín áttum von á litlu barni og gleði okkar var ómæld sem og allra í kringum okkur. Við pældum í nafni. Hvað kemur, strákur eða stelpa? Og undirbúningur var hafinn á fullu. Við fórum í byrjun febrúar í 12 vikna sónar og lítið kríli blasti við. Gleðin og þakklætið var mikið, vikur liðu og börnin okkar, fjölskylda sem og vinir, tóku þátt í gleði okkar.
Daginn sem við fórum í 20 vikna sónar og ætluðum að fá að vita hvort lítill strákur eða stúlka væri væntanleg, þá ákvað lífið að gefa okkur högg. Hvers vegna vitum við ekki, enda skiptir það kannski ekki máli en sorgin sem er hin hlið gleðinnar breiddi dökka vængi sína yfir okkur þennan dag sem við héldum að við þyrftum aldrei að lifa. En þetta voru skyndilega spilin sem við vorum með á hendi. Hvernig kemst maður í gegnum svona dag? Ég veit það ekki, en maður gerir það.
Daginn eftir beið okkar fæðingardeildin. Hvernig er hægt að lýsa því að sá staður sem færir fólki slíka gleði getur líka verið sá staður sem færir fólki þeirra mestu sorg? Maður stendur og gengur um gólf, horfir á ástina sína fulla af þjáningu, hún á að fæða krílið okkar sem er látið. Þennan dag sá ég úr hverju ástin mín er gerð, það veit engin hvað hann getur og er fær um fyrr en á reynir og orðið hetja er ágætis orð en lýsir ekki hvað ástin mín er í mínum augum. Það fer engin í gegnum svona dag nema með hjálp og starfsfólk fæðingardeildar hélt í hönd okkar allan þennan tíma.
Þóra og Unnur, það eru engin orð sem lýsa þakklæti okkar til ykkar og hversu undursamlegar þið voruð þennan sorgardag í lífi okkar. Prestarnir báðir sem sinntu okkur, Rósa og Bragi, takk fyrir kærleika ykkar.
Við eigum saman fimm dásamlega ljósbera, stóra fjölskyldu, undursamlega vini og umfram allt hvort annað. Sorgin í hjarta okkar er stór en gleðin yfir því sem við eigum hefur að sama skapi stækkað. Lífið heldur áfram en eitt vitum við hjónin, maður gengur að engu vísu. Við eigum einungis daginn í dag, þannig er það og þannig mun það verða.
„Augu þín sáu mig er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína áður en nokkur þeirra var til orðinn.“
139. Davíðssálmur
2017 – það sem við vorum fegin og glöð þegar þetta ár gekk í garð. Eftir strembið ár 2016 vorum við viss um að 2017 yrði okkar ár.
Brúðkaup á dagskrá og við vonuðum innilega að fljótlega eftir það myndum við fá að upplifa það að eignast barn saman en árið á undan hafði innihaldið 3 snemmbúna fósturmissa.
Vorbrúðkaupið okkar var fullkomið og það sem setti punktinn yfir i-ið var að nokkrum dögum síðar kom í ljós að óvæntur partýpinni hafði komið sér fyrir. Gleðin var mikil en vegna þess sem á undan var gengið var ég með mikinn fyrirvara á öllu og leyfði mér ekki að hlakka til strax. Eftir frábæran 12v sónar taldi ég mér trú um að nú gæti ég farið að slaka á og leyft mér að njóta meðgöngunnar.
20vikna sónar bókaður, mánudaginn 11. september 2017. Það sem ég hafði slæma tilfininngu gagnvart þessari dagsetningu.
Sónarinn gekk vel þangað til það var farið að skoða höfuð fóstursins. Ljósmóðirin skoðaði það aftur og aftur þangað til setningin sem enginn vill fá að heyra heyrðist… „ég er ekki að sjá það sem ég vil sjá, ég myndi vilja biðja sérfræðing um að kíkja á ykkur líka“. Á þessum tímapunkti hrundi heimurinn minn, ég vissi það bara – eitthvað að í höfði…. þetta gæti ekki verið gott. Sérfræðingurinn staðfesti það sem ljósmóðirin hafði séð. Um var að ræða alvarlegan og ólæknandi heilagalla hjá drengnum okkar. Við tóku langar útskýringar á því hvað þessi galli hefði í för með sér, hvernig líf myndi bíða drengsins, o.s.frv. Heimurinn var hruninn – við vorum komin í aðstæður sem engin góð leið var út úr. Kostirnir sem stóðu okkur til boða voru að enda meðgönguna eða halda áfram og fæða afskaplega veikt barn í þennan heim.
Dagarnir á eftir eru í mikilli móðu en einkenndust af rannsóknum, viðtölum við lækna og google-i heima. Endalausri leit af leið út úr þessum aðstæðum, að finna bara eitthvað – hvað sem væri – sem gæti gefið vísbendingu um að hann væri kraftaverkabarnið sem þessi galli hefði engin áhrif á. En ég vissi innst inni að þetta væri bara örvæntingarfull leið til að sleppa við að takast á við þessar aðstæður.
Hvernig gætum við tekið þá ákvörðun að fá son okkar í heiminn, vitandi að hans myndi bíða líf sem fæli í sér lítil sem engin lífsgæði?
Að sama skapi, hvernig áttum við að fara að því að taka meðvitaða ákvörðun um að enda meðgönguna? Svæfa drenginn okkar, yfirgefa spítalann og skilja hann eftir?
Fara heim með fangið tómt… ég gat ekki hugsað þessa hugsun til enda og sársaukanum er ekki hægt að lýsa en ég held að allir foreldrar geti sett sig í þessi spor.
Okkar besta ákvörðun í þessu ferli var að hitta mann sem er mér mjög kær en hann er bæði félagsráðgjafi og prestur. Það sem hann gaf okkur er ómetanlegt. Hann gaf okkur allan þann styrk og vissu sem við þurftum á að halda til að hefja ferlið sem við vorum búin að ákveða. Eftir þennan tíma lokaði ég öllum google-gluggum, hætti að leita að leiðum út og hef ekki horft einu sinni til baka eða efast um það hvort ákvörðunin sem við tókum hafi verið rétt. Á einhvern ótrúlegan hátt þá varð þessi ákvörðun og þetta ferli viðráðanlegt – ekki gott, svo langt frá því. En viðráðanlegt.
Drengurinn okkar fæddist miðvikudaginn 20. September kl 19.34. Hann kom beint í fangið okkar og þvílíkar tilfinningar. Hann var gjörsamlega fullkominn og svo fallegur. Ég var svo yfir mig ástfangin af þessu litla kríli og svo glöð að sjá hann en á sama tíma var hjartað í milljón molum yfir því að hann væri kominn.
Við fengum yndislegar og dýrmætar stundir með honum. Með þeim allra dýrmætustu sem ég á. Tókum fullt af myndum, kysstum hann og knúsuðum í bak og fyrir. Tíminn flaug áfram og það var komið að því sem ég hafði kviðið svo gífurlega – að fara heim, án hans.
Við völdum að fara heim þegar ljósmóðirin okkar var að fara heim. Hún hafði tekið á móti honum og verið okkur ómetanlegur stuðningur þennan dag. Ég gat ekki hugsað mér að ókunnug manneskja tæki við honum svo ég bað hana að fara með hann og búa um hann.
Það var vægast sagt erfitt að horfa á eftir honum en það sem gerði það bærilegt var að við höfðum ákveðið að koma aftur daginn eftir og hafa bænastund. Ég vissi að við værum ekki að kveðja hann endanlega þetta kvöld, við myndum sjá hann aftur strax daginn eftir.
Amma, afi og stóra systir (7 ára gömul) komu með í þá bænastund. Stóra systir fékk að sjá og kveðja litla bróður sinn. Litla engilinn sem hún hafði beðið eftir með svo mikilli eftirvæntingu – loksins loksins væri hún að verða stóra systir – loksins loksins væri óskin hennar að rætast.
Við vorum óviss hvort við ættum að leyfa henni að koma eða ekki. Við ákváðum að bjóða henni með og gerðum okkar besta til að undirbúa hana eins og hægt væri. Segja henni að hann væri pínu pínu lítill, hann yrði kaldur að snerta, að það væri dálítið eins og hann væri með marbletti á höfðinu sínu og í andlitinu. Það kom strax í ljós að það rétt ákvörðun að taka hana með. Hún fékk að halda á honum, færa honum bangsa, kyssa hann og knúsa og kveðja hann. Í dag talar hún mikið um hann, hann er raunverulega litli bróðir hennar, hún er í alvöru stóra systir. Eini munurinn er sá að hennar litli bróðir er á himnum.
Bænastundin var svo ótrúlega falleg. Stutt og einföld en einstaklega falleg kveðjustund.
Á einhvern ótrúlegan hátt verður lífið viðráðanlegt aftur. Það koma ennþá tímar þar sem ég er viss um við komumst ekki í gegnum þennan missi og þar sem ég held að gleðin geti aldrei orðið eins einlæg og hún var áður.
Í dag eru samt sem áður fleiri og fleiri dagar sem eru góðir. Við ákváðum það strax að þessi litli drengur myndi ekki bara skilja eftir sig sárar og vondar tilfinningar. Hans koma í okkar líf ætti það skilið að fá líka að skilja eftir sig falleg spor og dýrmætar minningar. Við erum dugleg að minna okkur á það og smá saman hefur minningin orðið bærilegri og fallegri.
Í dag er ég þakklát fyrir litla engilinn okkar, ég er þakklát fyrir allt fólkið sem við eigum í kringum okkur, ég er þakklát ljósmæðrunum og öllum læknum sem hjálpuðu okkur, ég er þakklát fyrir börnin sem við eigum og fengum að halda hjá okkur. Það er honum að þakka að við erum öll örlítið þakklátari í dag fyrir allt sem við eigum og við gerum okkur betur grein fyrir því að það er ekki sjálfgefið að við fjölskyldan fáum að vera hérna öll saman.
Ég trúi því að sálin hans Benjamíns hafi valið sér skærustu stjörnuna á himninum. Ég trúi því líka að sálirnar okkar finni sér alltaf leið til að finna hvor aðra aftur. Þrátt fyrir að farartækið sem hann fékk úthlutað í þetta skiptið hafi verið örlítið bilað þá veit ég að við munum hitta hann aftur. Hvort sem það sé satt eða ekki þá gefur þessi mynd okkur mikinn frið og ró. Miklu meiri en ég hefði getað ímyndað mér að hægt væri að upplifa, einungis 4 mánuðum eftir að stjarnan okkar fæddist og kvaddi.
Elsku vinir. Það hefur sennilega ekki farið framhjá ykkur að við litla fjölskyldan áttum von á lítilli stúlku núna í byrjun marsmánaðar. Ég var sett 5. mars og við orðin ansi mikið spennt að fá hana í fangið.
Á föstudaginn fyrir viku síðan fór ég í skoðun hjá ljósmóðurinni okkar og til að gera langa sögu stutta enduðum við upp á kvennadeild þar sem kom í ljós að það var enginn hjartsláttur hjá barninu okkar. Ég hafði fundið fyrir breyttum hreyfingum kvöldið áður, en taldi mér trú um að nú væri stúlkan að hvíla sig áður en hún kæmi, nú væri hún loksins að koma.
Á laugardagsmorguninn 5. mars var fæðingin sett af stað og stúlkan okkar kom andvana í heiminn klukkan 22:45, 13 merkur og 52 cm. Okkur stoltum foreldrunum fannst hún gullfalleg og fullkomin.
Við gáfum dóttur okkur nafnið Frigg, en nafnið merkir, “sú elskaða”.
Á þessa leið hófst facebook status árið 2016 sem við hjónin settum inn skömmu eftir að við komum heim, barnlaus, af fæðingardeildinni.
Þessi timi er enn í móðu hjá mér, facebook tilkynningin var einn af þessum hlutum sem við urðum að gera, eins og að velja dóttur okkar hinsta stað til að hvíla á, elda kvöldmat, VERA STERK, finna falleg líkklæði, ganga frá í eldhúsinu, velja tónlist fyrir útförina, vakna á morgnana, taka á móti gestum og blómum, fara í sturtu, hughreista aðra, velja jarðafarardag, lesa bók fyrir eldri dóttur okkar, 4 ára, strauja jakkafataskyrtu, sofa…. ohhhh…. sofa, það var það eina sem mig langaði að gera og helst ekki vakna í bráð og átta mig á því eina ferðina enn að martröðin var raunveruleikinn.
Sorgina eigum við því miður öll sameiginlega, hana þekkjum við allt of vel, gnístandi sára – ég þarf ekki að segja ykkur frá henni. Þess vegna langar mig að tala um hamingjuna.
Því svo gerðist það einn daginn að hversdagsleikinn tók aftur við – búið að jarða barnið, gestirnir farnir heim, kökurnar búnar, maðurinn minn farinn aftur að vinna, eldra barnið í leikskólann, blómin hætt að berast og áfram hélt fréttablaðið að koma, stútfullt af fréttum eins og ekkert hafi í skorist. Eftir sat ég ein í sófanum með ungbarnadótið ónotað allt í kringum mig, með grátbólgin augun, klofið í hakki og stálma í brjóstunum – EKKI SVO STERK.
Á þessum tímapunkti fann ég minn botn. Ég þurfti ekki að dvelja lengi þar til að átta mig á að á honum vildi ég ekki vera. Ég varð að finna tilgang með þessu öllu saman – Ef ekki fyrir eldri dóttur okkar, manninn minn, hjónabandið, fjölskylduna, sjálfan mig, þá fyrir Frigg… dóttur okkar sem fékk ekki að lifa. Fyrir hana skildi ég lifa – það var tilgangurinn! Mér fannst visst vanþakklæti fólgið í því að lifa ekki lífinu til fulls og njóta alls þess sem það hefur upp á að bjóða – ég fæ að lifa á meðan aðrir deyja. En hvernig átti ég að lifa, hvernig í ósköpunum átti ég að hafa mig upp úr sófanum – helvítis sófanum! Það var svo sársaukafullt að horfast í augu við raunveruleikann…. þá var bara auðveldara að loka á allt saman og halda áfram að sofa.
Mín leið var að hlaupa. Ég fór út á hverjum degi og hljóp, stundum hægt, stundum hratt, stundum brosandi, stundum þreytt, stundum brjáluð, stundum grátandi, stundum glöð. Hlaupin var mín hugleiðsla. Þá var ég ein með sjálfri mér og leyfði mér að finna allar tilfinningarnar – á hlaupunum þurfti ég ekki að setja upp neinar grímur, þurfti ekki að standa mig fyrir neinn, bara vera ég með sjálfri mér og tilfinningunum mínum og þannig fór ég að leysa úr flækjunum, smátt og smátt, einni í einu. Ég tók allar óþægilegu tilfinningarnar og hræðilegu minningarnar og leyfði þeim að koma óhindrað til mín, smátt og smátt, einni í einu. Á löngum tíma tókst mér að yfirfæra allar óbærilegu tilfinningarnar sem fylgdu minningunum um Frigg og bugandi vonbrigðunum yfir því sem ekki yrði, yfir á jákvæðar, glaðar og góðar tilfinningar. Þannig tókst mér smátt og smátt að hugsa um dóttur mínar án þess að finna yfirþyrmandi sorg og trega – í staðinn fór ég að finna minn eigin kraft, styrk og hugrekki, gleði, stolt og HAMINGJU.
Klausa úr skissubók frá nóv. 2016
“Ég var að hlaupa í niðamyrkri upp Álfheimana þegar það laust skyndilega niður í huga mér AÐ FRIGG ER STÆRSTA GJÖF LÍFSINS TIL MÍN og eins algjörlega fáránlega og það hljómar er sú staðreynd upphafið að nýju og betra lífi – HAMINGJUSAMARA….. Ég fór að hágráta – með hljóðum og með ekka – ég gat ekki hætt að gráta – mér fannst ég skrefi nær því að finna í raun einhvern tilgang – og ég fór að brosa – ég get ekki hætt að brosa.”
Facebook status vikan 5.-9. mars 2018. Hugleiðingar í vikulok
Síðustu tvö ár hafa verið stanslaus tilfinningarússibani en nú held’ég sé loksins að lenda.
Mánudaginn, 5 mars, voru komin tvö ár síðan Frigg okkar fæddist andvana eftir fulla meðgöngu. Algjörlega fullkomin, gullfalleg með svarta hárbrúskinn sinn – eins og systur hennar. Með tíu fingur og tíu tær, eyru pabba síns og varir mömmu sinnar. En augun fengum við aldrei að sjá – suma daga þrái ég ekkert heitar en að hafa fengið að horfa í þau, þó ekki nema bara einu sinni.
Þann 14. febrúar í ár fæddist þriðja dóttir okkar. Algjörlega fullkomin, gullfalleg með svarta hárbrúskinn sinn – eins og systur hennar. Með tíu fingur og tíu tær, eyru pabba síns og varir mömmu sinnar. Og augun… ó þessi augu, sem ég get gleymt mér í endalaust.
Við höfðum það að markmiði alla meðgönguna að taka hverjum degi með æðruleysi og trú á að allt færi vel.
Frigg er styrkurinn í hjarta mér, hugrekkið mitt og drifkrafturinn minn, hún dó ekki til einskis – hún er og verður alltaf hjá mér og hjálpar mér í gegnum alla daga og þau verkefni sem lífið bíður uppá. Þannig fann ég styrkinn til að ganga með annað barn í skugga hræðslu, angistar og kvíða vegna fyrri reynslu, styrkinn til að takast á við erfiðar minningar og spennufallið eftir fæðinguna en ekki síst styrkinn til að leyfa mér að vera hamingjusöm, elska og njóta, og vera þannig vonandi besta mögulega útgáfan af sjálfri mér.
Það var í lok október sem við komumst að því að lítill laumufarþegi væri um borð. Við tók þetta venjulega ferli, smá sjokk en um leið mikil gleði. Fljótlega fór ég að upplifa mikla hræðslu, hræðslu um að ekki allt væri með felldu. Eftir góðan 12 vikna sónar reyndi ég að telja mér trú um að ég gæti leyft mér að hlakka til. Ég leyfði mér að horfa fram á veginn, að setja mig í þau spor að áður en við vissum af yrðum við fjögur. Ég fór reglulega í sónar og alltaf sáum við lítið sprækt og heilbrigt líf sem minnti okkur á hvað væri framundan. Allar mælingar komu vel út og hann var fullkominn í alla staði. Allan tímann var ég með hræðilega tilfinningu innanbrjósts.
20 vikna sónarinn var bókaður en þó ekki fyrr en á rúmlega 21 viku þar sem við vorum á ferðalagi. Við mættum í sónar, vongóð en smeyk. Sónarinn gekk vel og við áttum von á litlum dreng. Í ljós kom að ljósmóðirin vildi láta sérfræðing skoða litla drenginn okkar betur. Í fyrstu virtist þetta ekki vera neitt alvarlegt. Við bókuðum tíma tveimur dögum seinna hjá sérfræðing. Skoðunin tók óvenju langan tíma og var sérfræðingurinn frekar hljóðlátur. "Ég er ekki að sjá það sem ég vil sjá, ég myndi vilja fá álit annars læknis".. setning sem að enginn vill heyra. Samtal þeirra var eins og hnefahögg í andlitið. Læknirinn tjáði okkur að drengurinn okkar væri með alvarlegan fósturgalla. Tárin byrjuðu að leka og ég náði að hvísla út úr mér "ertu viss um það?". Dagurinn einkenndist af rannsóknum, skoðunum og viðtölum við lækna. Við tóku útskýringar á því hvað þetta hefði í för með sér, hvernig líf drengurinn okkar myndi eiga. Á einu augnabliki hrundi heimurinn.
Eftir þessa rússíbanaferð á spítalanum vorum við send heim vitandi það að við hefðum helgina til að taka ákvörðun um framhaldið. Við löbbuðum dofin út af spítalanum. Við höfðum þrjá daga til að taka ákvörðun um hvort að við vildum binda enda á litla lífið sem var að dafna í móðurkviði. Við tók erfiðasta helgi sem að ég hef upplifað.
Við stóðum frammi fyrir erfiðustu ákvörðun lífs okkar. Hvernig áttum við að taka ákvörðun um að enda meðgönguna? Hvernig áttum við að taka ákvörðun um að fæða í þennan ósanngjarna heim drenginn okkar, vitandi að lífsgæði hans yrðu engin?
Draumadrengurinn okkar kom í heiminn þann 3. mars klukkan 01:15. Ljósmóðirin bauð mér að fá hann strax í fangið. Tíminn stóð í stað. Ég sprakk úr stolti. Elsku strákurinn okkar var svo fallegur, fíngerður með mjúkar kinnar og nebba. Einfaldlega fullkominn. Við nefndum hann Gabríel Mána. Mikilvægast af öllu var að við foreldrarnir fengum dýrmætan tíma með drengnum okkar, við fengum tíma til að halda utan um hann, horfa á hann og kynnast honum. Amma hans var með okkur í gegnum ferlið sem var okkur afar dýrmætt. Hún horfði svo blíðlega á hann þegar hún gekk um með hann og faðmaði.
Áður en við fórum af spítalanum daginn eftir héldum við fallega kveðjustund með djákna og foreldrum okkar. Við áttum ógleymanlegar stundir með Mánagullinu okkar áður en tími var kominn til að kveðja. Skrefin heim, tómhent af fæðingardeildinni voru óendanlega þungbær.
Við tók erfiðasti tími sem við höfum upplifað. Við vorum dofin, leið og meyr. Við fundum fyrir tómleika. Við fundum sterka þörf fyrir að gefa af okkur ást og hlýju, því það er það sem við hefðum gefið stráknum okkar Gabríel Mána.
Ekki má gleyma öllu góða fólkinu sem við höfðum í kringum okkur, sem studdi við okkur á erfiðustu vikum lífs okkar, ómetanlegt. Hjalti Jón prestur jarðsetti Gabríel Mána og eigum við honum mikið að þakka. Sá dagur var bjartur og fallegur og mikil kyrrð ríkti. Það er mér afar minnistætt þegar hann lýsti sorginni fyrir okkur eins og lyftuferð, við vitum ekki alveg hvar við stoppum á leiðinni. Stundum förum við niður í stað þess að fara upp þótt við höfum ætlað okkur það. Við upplifum öll sorgina á misjafnan hátt og getur ferlið verið óútreiknanlegt.
Sumir segja að tíminn lækni öll sár, það er bara alls ekki satt. Með tímanum venst maður sorginni og sársaukanum til þess eins að geta haldið áfram að lifa lífinu. Svo opnast sárið þegar maður á síst von á því. Það er í lagi, af því að það er eðlilegt að syrgja. Þetta er ennþá jafn vont, ennþá jafn vont og daginn sem hann kvaddi.
Þrátt fyrir að sárið sé til staðar koma fleiri og fleiri dagar sem eru góðir. Við ákváðum það fljótt að við vildum að minningin um Gabríel Mána yrði falleg. Mánagullið okkar hefur gert okkur að fallegri, þakklátari og einlægari manneskjum og fyrir það erum við ósköp þakklát.
Í huga okkar, í hjörtum okkar, hjá okkur að eilífu.
Mig langar að deila með ykkur sögu Júlíu okkar.
Fimmtudagsmorguninn 3. desember árið 2015 mætti ég í vikulegan sónar á Landspítalanum. Meðgangan hafði gengið illa, miklar blæðingar hófust á 9. viku og vorum við mæðgur komnar með krónískt fylgjulos og legvatnsleka að auki. Ekkert annað kom til greina en að berjast til síðasta blóðdropa, reyna á hverjum einasta degi að vera jafn dugleg og litla ljósið okkar sem fram að þessu virtist ekki láta vandræðin hafa áhrif á sig.
Um leið og ég sá mynd á skjánum áttaði ég mig á því að þessum litla unga væri ekki ætlað að koma með okkur heim. Legvatnið hafði hætt að leka nokkrum dögum áður sem gat annað hvort þýtt að lekinn hefði stöðvast og legvatnsmagnið væri að aukast, eða að legvatnsmagnið væri komið niður fyrir lágmark. Legvatnið var mjög greinilega nánast horfið. Í fyrsta skipti var ég ein í sónar. Í fyrsta skipti var ókunnugur læknir að skoða. Ég fylgdist róleg með stúlkunni minni. Eins og venjulega hreyfði hún sig miklu meira en eðlilegt gat talist í legvatnsleysi og skertu blóðflæði. Eins og venjulega fyllti hún mig hugrekki og þreki til þess að takast á við næsta verkefni. Læknirinn var greinilega óöruggur og talaði óljóst um ástandið. Líklega treysti hún sér ekki til þess að segja mér hversu alvarlegt ástandið væri án þess að ráðfæra sig við okkar sérfræðing. Ég sagði henni að ég gerði mér grein fyrir stöðunni. Hún bauðst til þess að hringja í lækninn okkar og ég þáði það. Um leið og hún kom inn brotnaði ég niður. Hún vildi fá að skoða líka og í síðasta skipti sá ég kraftaverkið mitt fulla af lífi á sónarskjánum.
Fæðingin var plönuð nokkrum dögum síðar þegar maðurinn minn og eldri börnin tvö voru komin í bæinn. Ljósmóðirin sem tók á móti okkur var yndisleg og setti tóninn fyrir daginn. Fagmennskan óaðfinnanleg, en um leið áþreifanleg samkennd. Ég fann huggun í að sjá tár blika í augum hennar þegar endirinn nálgaðist. Mestan part dags fengum við að vera í næði. Bara við tvö að koma litlu stúlkunni okkar í heiminn. Á undarlegan hátt var fæðingin ekki ólík hinum tveimur og langt frá því að vera óbærileg sálarlega. Ég fann að með hverri hríð jókst tilhlökkunin eftir því að fá litla skottið í fangið. Fá að sjá hana, faðma og kyssa.
Svo kom hún. Ljósmóðirin bauð mér að fá hana beint í fangið. Ég nánast gargaði já og fannst spurningin fráleit. Tíminn stoppaði. Hún var fullkomin. Tíu tásur, tíu fingur, tvö eyru, annað örlítið krumpað, flatar iljar eins og hún á kyn til og fallegasta litla nef sem heimurinn hefur séð. Ég man að ljósan spurði hvort þetta væri strákur eða stelpa. Mér fannst brjóstið á mér ætla að springa úr stolti þegar ég sagði henni að þetta væri Júlía Björgvinsdóttir. Í örfáar mínútur komst ekkert að nema ást, hamingja og stolt. Yfirþyrmandi stolt. Um stund þurfti ekkert að hugsa. Það var enginn morgundagur, engar áhyggjur. Bara núna. Bara hún og við. Litla ljósið var svo friðsæl og falleg. Það var líkt og hún svæfi.
Pabbi hennar gekk með hana um herbergið og horfði á hana með sínu allra blíðasta augnaráði. Með sama svip og þegar hann hélt á Sögu sinni og Vilja nýfæddum. Hugfanginn og hissa. En um leið eins og hann hefði þekkt hana allt sitt líf. Bara ósköp venjulegur nýbakaður faðir með litlu stúlkuna sína.
Við eyddum restinni af deginum með Júlíu. Eftir vaktaskipti tók mamma, okkar yfirljósmóðir, við. Hún tók óteljandi tásu og handaför. Fékk að kynnast litlu ömmustelpunni sinni.
Sjúkrahúsprestur kom líka til okkar. Hún kveikti á kerti, tók Júlíu í fangið og gaf henni nafnið sitt. Hún var yndisleg og átti með okkur ógleymanlega og fallega stund.
Smátt og smátt tók óumflýjanleg tilfinning að skerast í leikinn. Nýstandi sársauki læddist að hjartanu. Um kvöldið var kominn tími til að kveðja. Kominn tími til þess að fara heim með tómt fang og hjarta. Hver einasta fruma í líkamanum kallaði á að þessari stund yrði frestað. Bara eitt knús í viðbót. Bara einn koss.
Við keyrðum heim um tómar götur. Veðrið brjálað og enginn á ferli. Tíminn stóð enn í stað. Ég skreið upp í rúm og þráði það eitt að sofna með Júlíu minni og vakna aldrei aftur.
Dagarnir á eftir einkenndust af algjörum dofa og þögn. Tóm kúla, engin spörk, ekkert hnoð. Brjóst full af mjólk sem barnið mitt kæmi aldrei til með að drekka. Tómt hjarta. Að auki bættist við nýr, ögn óvæntur vinkill. Syrgjandi stór systir. Fimm ára Þórunn Saga sem reyndi að láta langþráða litla systur, sem bara englarnir fengju að njóta, ganga upp í huga og hjarta. Ég man líka hvað mér þótti skrýtið að lífið virtist halda eðlilega áfram hjá öðru fólki. Skrýtið að allur heimurinn hefði ekki stöðvast eins og hann gerði hjá okkur.
Í dag eru 18 mánuðir síðan Júlía fæddist. Þessi tími hefur verið sá erfiðasti sem við höfum upplifað, en um leið sá lærdómsríkasti. Tilfinningarnar hafa dýpkað, ekki bara þær vondu heldur góðu líka. Það setur hlýju í hjartað að fylgjast með litlu fjölskyldunni minni. Hér tekur enginn lífinu og hamingjunni sem sjálfsögðum hlut – hvort sem hann er 3 eða 33 ára. Hér skiptir ekkert máli nema fólkið okkar og tíminn sem við eyðum saman. Þetta eru fótspor Júlíu. Fótspor sem ég sé og finn fyrir á hverjum einasta degi.
Þessi tími hefur líka fært okkur lítið kraftaverk, lítinn regnbogadreng. En þrátt fyrir alla þá ómældu hamingju og gleði sem hann gefur mun hann aldrei koma nálægt þeim stað í hjörtum okkar sem tilheyrir Júlíu. Hún er og mun alltaf vera fullgildur meðlimur í fjölskyldunni okkar og við trúum því að einn daginn verðum við öll saman á ný. Hversu viðeigandi að enda á erindi úr ljóðinu Tvær stjörnur eftir Megas.
Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér
og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer.
En ég vona bara að hann hugsi svolítið hlýlega til mín
og leiði mig á endunum aftur til þín.
Hergeir Þór er fyrsta barn föður síns og fyrsta barn foreldra sinna saman. Hann á tvo stóra bræður og er þriðja barn móður sinnar. Við foreldrarnir höfðum beðið eftir barni saman um góðan tíma. Einn góðan aðfangadag fengum við svo að vita af tilvist Hergeirs Þórs en við þorðum samt ekki að trúa því og þorðum ekki að fagna alveg strax. Nokkrum dögum og nokkrum þungunarprófum síðar þá fór tilvist hans ekki á milli mála og við fórum að sjá fyrir okkur lítið barn koma inn í líf okkar. Nokkrum vikum síðar áttum við tíma í snemmsónar. Full eftirvæntingar að sjá litlu baunina okkar. Það var mikið áfall þegar í ljós kom að það sást hvorki né heyrðist hjartsláttur.
Allt leit út fyrir að um dulið fósturlát væri að ræða. Ég fékk þar til gerðar töflur til að hreinsa legið. Ég var full af ólettueinkennum allan þennan tíma og leið óbærilega illa andlega. Í endurkomu til að skoða hvort full úthreinsun hafi orðið úr legi þá kom í ljós spriklandi lítið fóstur með þennan fína hjartslátt. Mjög dramatískt augnablik og við vissum ekki hvort við áttum að hlægja eða gráta, auðvitað himinlifandi en hissa á sama tíma.
Við tók mikil gleði en líka hræðsla. Hræðsla um hvort lyfið myndi hafa einhver áhrif á barnið okkar. Við fengum þéttara eftirlit og fylgst var sérstaklega með litla hörkutólinu okkar, hvort hann myndi þroskast eðlilega eins og best var hægt að sjá með ómskoðun. Á 18. viku fengum við að vita að það væri von á litlum strák. Allt leit vel út og við leyfðum okkur að anda léttar og trúa því allra besta. Allt myndi fara vel.
Á 20. viku byrjaði mér að blæða. Í fyrstu virtist það ekki vera neitt alvarlegt, gerð var skoðun sem leiddi ekkert alvarlegt í ljós. Viku síðar blæddi aftur og þá mjög mikið. Við skoðun kom í ljós að legvatnið væri byrjað að leka. Annað áfallið á þessari meðgöngu. Samt var von. Ég þurfti að hætta að vinna og reyna sem minnst á mig. Eftir 2 nætur á meðgöngu- og sængurkvennadeild fékk ég að fara heim með allskonar fyrirmælum um hvað ég þyrfti að passa, m.a. vegna mikillar sýkingarhættu. Næstu vikur var þétt eftirlit með okkur. Hver skoðun gaf til kynna versnandi ástand. Legvatnið var orðið mjög lítið og ég hætti að finna hreyfingar. Þannig vissi ég aldrei hvernig litli strákurinn okkar hefði það inni í bumbunni því ég fékk engin merki frá honum. Ég fór mjög reglulega til ljósmæðra til að hlusta á hjartsláttinn. Bara til að vita að hann væri í lagi. Á deginum sem við vorum gengin 25 vikur fórum við í skoðun sem reyndist verða sú síðasta. En það vissum við auðvitað ekki þá. Við fengum að vita að ég yrði gangsett fyrir 34. viku í síðasta lagi ef ég myndi þá ekki fara sjálf af stað fyrir þann tíma og það yrði mjög gott að ná 28 vikum. Læknirinn sagði okkur með beinum orðum að hann gæti dáið. Við fengum að skoða vökudeildina til að sjá hvar hann yrði fyrstu daga eða vikur lífs síns. Við fórum svo heim og áttum að koma í mæðravernd 2 dögum síðar.
Ég var með hræðilega tilfinningu innanbrjósts. Bjartsýnin mín um að allt myndi fara vel var þrotin. Daginn eftir varð ég að fá að heyra hjartsláttinn til að vita að allt væri enn í lagi. Ég fékk að hitta ljósmóður sem hlustaði eftir hjartslætti. Hjartslátturinn heyrðist ekki. Það slokknaði á tilfinningum mínum. Næsta skref var að fara í sónar. Þar fengum við staðfest að hjartað í litla stráknum okkar var hætt að slá. Allt varð tómt.
Ég var gangsett sama kvöld en það tók 2 daga að koma af stað fæðingu. Í millitíðinni fengum við tíma til að átta okkur, tala við sjúkrahúsprestinn og ljósmæður til að undirbúa okkur foreldrana, stóru bræðurna og fjölskylduna alla fyrir því sem var að gerast. Það var ljúfsár tími. Allir pössuðu svo vel upp á okkur, sérstaklega amma ljósmóðir. Amma tók á móti litla englastráknum okkar. Fæðingin var falleg stund og ómetanlegt ferli að fara í gegnum. Við fengum litla engilinn okkar í fangið og hann var alveg fullkominn, það vantaði bara að litla hjartað hans myndi slá. Á fæðingardaginn héldum við fallega minningarstund ásamt okkar nánustu og gáfum stráknum okkar nafnið Hergeir Þór. Stórt og mikið nafn fyrir miklu hetjuna okkar sem hafði barist fyrir lífi sínu og tilvist.
Við fengum að hafa Hergeir Þór hjá okkur í 2 nætur. Við áttum fallegan tíma með litla englastráknum okkar. Kælivaggan frá Gleym mér ei var ómetanleg sem og minningarkassinn. Starfsfólkið var ómetanlegt, yndisleg hlýja og umhyggja sem við mættum allan okkar tíma á spítalanum.
Á heimferðadegi var yndislegt veður, sól og sumarbyrjun. Það var undarleg stund að skilja við litla Hergeir Þór okkar á spítalanum, það var stund sem við vissum að var óumflýjanleg og við undirbjuggum okkur eins vel og við gátum sem er svo auðvitað alls ekki hægt að undirbúa sig neitt sérstaklega undir. Þetta var skref sem yrði að taka til að halda áfram að stíga lítil skref fram á við. Það var orkugefandi og nærandi að anda að sér fersku sumarlofti þegar út var komið. Orka sem fyllti lungun. Við fórum heim til okkar, heim til stóru bræðranna og syrgðum saman öll á sinn hátt en alveg ótrúlega sterk og samstíga. Hjörtun voru brotin.
Jarðarförin fór svo fram í kirkjunni okkar með yndislegum prestinum okkar og okkar besta fólki. Þessi stund var eins falleg og hún gat orðið. Kistan hans Hergeirs Þórs var lögð í gröf ömmu sinnar sem við trúum að hafi tekið á móti honum og passi hann fyrir okkur þar sem þau eru saman. Þessi mikla lífsreynsla færði okkur foreldrana þéttar saman en nokkru sinni fyrr og settum við upp trúlofunarhringa eftir jarðarförina, umkringd fólkinu okkar. Það var þrátt fyrir mikla sorg, mikil hamingja í brotnu hjörtunum okkar og mikið stolt yfir litlu hetjunni okkar.
Okkar mesti styrkur hefur verið samvera og að tala upphátt. Tala um Hergeir Þór og skoða myndir og myndbönd af honum. Hergeir Þór er og verður alltaf stór partur af lífi okkar og markar djúp spor í hjörtum okkar. Við minnumst hans full af ást og hamingju. Eins og sorgin getur verið óbærileg og þung þá stöndum við samt upprétt og erum sterkari og magnaðri en nokkru sinni. Skrefin framávið eftir missinn hafa verið misþung. Fyrst voru þau mjög þung. Þau léttast meira með tímanum en svo koma snjóskaflar sem þarf að klífa án fyrirvara, sama hvernig viðrar. Hergeir Þór hefur ekki enn átt sinn fyrsta afmælisdag en við munum svo sannarlega halda upp á hans dag og minnast hans extra mikið. Það líður ekki sá dagur sem ég hugsa ekki til hans. Ég er stolt móðir þriggja drengja, einn þeirra er engill í öðru lífi þar sem við munum sameinast einn góðan veðurdag. Þar til að því kemur svífur sálin hans yfir okkur og lifir í gegnum hjörtu okkar.
Að verða móðir er eitthvað sem ég hef alltaf hlakkað til! Ég vildi samt ná ákveðnum markmiðum áður en það gerðist. Öll þess markmið snérust að því að skapa betra líf fyrir börnin mín. Ég vildi bera búin að mennta mig, komin með fasta vinnu og kaupa mér íbúð. Ég og maðurinn minn ákváðum að við ætluðum okkur að eignast barn árið 2016. Það gekk eftir, sem er ekki sjálfsagt. Sérstaklega þar sem ég er með slímhimnuflakk og vissi í raun ekki hvort það myndi hafa áhrif.
En rosalega vorum við glöð. Ég hlóð niður í símann minn allskonar smáforritum til að fylgjast með hvað væri að gerast í hverri viku. Við tókum myndir af mér á hverjum laugardegi eftir 12. viku til að fylgjast með þessum stórmerkilegum breytingum. Ég var mjög róleg á meðgöngunni, allt gekk svo vel. Eftir 30. viku var okkur farið að hlakka mjög mikið til. Bara örfáar vikur eftir! Ég byrja að þvo öll barnafötin sem maðurinn minn var búin að fara offörum í að kaupa og strauja þau öll. Ég sem stauja aldrei! En allt átti að vera fullkomið fyrir barnið okkar. Við förum í 34. vikna sónar, föstudaginn 22. júlí 2016, þar sem fylgjan var lágsett í 20. vikna sónar og allt leit vel út. Við leggjum lokahönd á barnaherbergið. Sunnudagskvöldið 24. júlí hengi ég upp síðustu myndina í barnaherbergið.
Í hádeginu á daginn eftir förum við í mæðraskoðun. Andrúmsloftið létt og glaðlegt. Ég legst á bekkinn og hún nær í dopplerinn. Ekkert gerist. Ljósmóðirinn segist ekki alveg skilja í þessu en það gæti verið að rafhlöðurnar séu að klárast. Hún ákveður því að sækja annað tæki. En allt kom fyrir ekki, hún finnur engan hjartslátt. Hún segist vilja senda okkur niður á Landspítala sem og við fórum. Þar upplifðum við okkar verstu martröð „því miður það er enginn hjartsláttur“. Þetta eru orð sem ég mun aldrei gleyma. Eftir þetta tók við biðin, biðin við að fæða barnið okkar sem okkur hlakkaði svo til að kynnast. Okkur fæddist 10 marka strákur kvöldið 26. júlí sem fékk nafnið Kormákur Emil. Hann var yndislegur! Alveg fullkominn. Engin augljós skýring hvað hefði gerst en síðar fengum við að vita að hann hefði á einhvern hátt náð að kremja naflastrenginn sinn.
Við tók erfiðasti tími sem ég og maðurinn minn höfum gengið í gegnum. En við höfðum ekkert val við urðum að komast í gegnum hann. Okkar hlutverk í lífinu var að fara í gegnum þetta og með minningu sonar okkar í huga ætluðum við að gera það eins vel og við gátum. Við fórum erlendis til að núllstilla okkur. Fara í nýtt umhverfi og sjá nýja hluti. Mikilvægast að öllu var að við vorum saman og hjálpuðum hvort öðru í gegnum þessa erfiðu tíma. Við giftum okkur og bjuggum til minningar saman og minningar um Kormák Emil. En ekki má gleyma öllu góða fólkinu sem við höfum í kringum okkur sem studdi við okkur á allan hátt sem það gat. Fjölskyldan okkar, vinir, starfsfólk Landspítalans og ljósmóðirin sem heimsótti okkur heim fyrstu dagana. Einnig má þar nefna Hjálmar Jónsson sem jarðsetti Kormák Emil. Hann sagði meðal annars að hann trúði því að þegar börn deyja þá eigi þau eftir að þroska hæfileika sína á öðru sviði en hér hjá okkur. Mér þótti mikið vænt um þessi orð því ég trúi þessu líka. Við fórum sömuleiðis í stuðningshóp á Landspítalanum þar sem pör í eins eða svipaða stöðu komu saman ásamt presti og ljósmóður. Allt þetta hjálpaði okkur gífurlega mikið og líður okkur betur í dag en við vitum samt að lífið mun aldrei vera eins. Við búum að reynslu sem við viljum ekki búa yfir en þar sem við fengum þar engu ráðið þá þurfum við að nota hana til góðs. Í lokin langar mig að deila með ykkur ljóði sem ég skrifaði niður fyrstu dagana eftir að Kormákur Emil fæddist. Þessi orð hljómuðu sífellt í huga mér og endaði ég á því að skrifa þau niður og úr varð þetta ljóð.
Kormákur Emil
Mig dreymdi og dreymdi
Mig dreymdi fallega og bjarta drauma
Drauma um barnið mitt
Barnið sem var alveg að verða tilbúið
Barninu sem ég ætlaði að kenna svo margt
Kenna því ást og umhyggju
Gengin 34 vikur og 3 daga
Allt var svo bjart
Á örskotstundu varð draumurinn af engu
„Því miður er enginn hjartsláttur“
Setning sem ég mun aldrei gleyma
Draumur minn varð af martröð
Hvað geri ég nú?
Við tók bið, endalaus bið
Biðin eftir að fæða andvana barnið mitt
Klukkan er 22:00 sólarhring seinna
Ég fæddi barnið mitt
Fullkominn dreng í alla staði
10 fingur, 10 tær!
Það var svo magnað hvernig hann varð til. Við vorum ekkert að reyna að verða ólétt, en svosem ekki heldur að passa okkur, en við höfðum alltaf þurft að hafa svolítið fyrir því að verða ólétt. Þann 22. febrúar komumst við að því að ég væri ólétt. Ég vissi að þetta væri heimsins mesti gleðigjafi og voru við öll á heimilinu svo hamingjusöm með þessar fréttir. Fyrir eigum við hjónin tvö börn sem reyndust okkur algjörir sólargeislar og hjálpuðu okkur svo mikið að komast yfir það sem gerðist. Tíminn okkar saman var dásamlegur og meðgangann gekk svo vel. Fyrstu vikurnar var ég með smá ógleði en ekkert alvarlegt. En það var einn tími hjá ljósmóðurinn sem var mjög erfiður. Hann byrjaði á því að ljósmóðirin tilkynnti mér að ég væri komin með meðgöngusykursýki sem var svolítið sjokk, en þegar upp er staðið var það mjög lærdómsríkt og lífsnauðsynlegt því við fjölskyldan byrjuðum að borða miklu hollara og ég grenntist um alveg helling bara af því að hugsa um sykurinn og passa mig vel. En svo fór ljósmóðirin mín að hlusta eftir hjartslætti en hún gat ekki fundið hann, sama hvað hún reyndi. Við hjónin vorum eðlilega svolítið stressuð, en við fengum að fara í sónar og þar hittum við yndislega ljósmóður og þarna var hann, eldhress og glaður og við foreldrarnir alveg hágrátandi af gleði. Við spurðum ljósmóðurina hvort hún gæti séð kynið og sagði að hún héldi að þetta væri strákur og við vorum svo glöð með það.
Síðan þegar ég var gengin 19 vikur fórum við uppá Landspítala í hjartasónar sem við gerum alltaf því það er hjartagalli í fjölskyldunni. En lækninum fannst þetta vera svo lítið barn og spurði mig hvort ég væri viss um að vera gengin 19 vikur. Eftir dágóðan tíma að leita að hjartslætti er hann alveg kjurr að reyna að sjá hvort barnið hreyfði sig eitthvað. En það gerði það ekki. Læknirinn vildi ekki segja mér neitt sjálfur en hann sagðist vilja að við færum upp á kvennadeild í sónar bara til að athuga hvort það væri í lagi með barnið og svo yrðum við í sambandi. Við vorum ekki að kveikja strax á perunni og við vorum búin að lenda í svona svipuðu með ljósmóðurinni svo við vorum bara „æ, er eitthvað vesen á honum aftur“. En svo vorum við látin bíða mjög lengi í einhverju herbergi og loksins fengum við að fara í sónartæki og þá segir hún verstu fréttir sem ég hef heyrt og ég hálfpartin fór út úr líkamanum og leið eins og þetta væri ekki að gerast. Hún sagði okkur að því miður er barnið dáið. Maðurinn minn fór strax að gráta, en ég vildi ekki trúa þessu og ég var í smástund í sjokki áður en ég fór að gráta. Ég sagðist vilja fá betra tæki og skoða þetta betur. Hún sagði ekkert mál ég skal sækja aðra ljósmóður og við fórum í annað tæki og við sáum hann og hann var alveg kyrr og var svo smár. Sorgin var svo mikil og líka kvíði yfir að þurfa að fæða hann þar sem ég hef bara farið í keisara og ég var svo kvíðin fyrir því að fæða dáinn son minn. Ég var send heim með pillu sem ég átti að taka inn strax og stíl sem ég átti að setja upp eftir tvo daga.
Þegar við komum heim þá sögðum við börnunum okkar og við grétum öll saman sem var yndislegt. Þau hugguðu okkur jafn mikið og við þau. Það var erfitt að taka þessa pillu og ég hugsaði stöðugt „en ef hann er á lífi???“. En ég vissi að ég yrði að taka hana. Síðan næsta dag vorum við með barnaafmæli sem við gátum ekki hætt við. Ég kveið rosalega fyrir því en þegar upp var staðið þá fengum við 2 tíma þar sem við gátum aðeins gleymt sorginni og séð börnin okkar glöð. Það var pínu óhugnalegt að hugsa til þess að vera með hann dáinn í leginu mínu en hann var allavega hjá okkur sem mér fannst gott að hugsa til, að strjúka bumbuna í seinustu skiptin. Þann 2. júní fór ég uppá kvennadeild til að fæða hann Magnús. Ég kveið svo mikið fyrir þessum degi en þegar upp var staðið þá var þetta ótrúlega jákvæð upplifun og hjálpaði helling með sorgina að hafa átt þessa stund með honum. Við fengum yndislega ljósmóður sem byrjaði og kláraði með okkur. Ég fékk bara hálfa töflu upp í leggönginn um morguninn og það var í raun eina sem ég þurfti til að koma mér af stað. Það var búið að undirbúa mig andlega að þetta gæti tekið langan tíma og að ég gæti þurft að fara í útskröpun. En allt gekk eins og í sögu og mér fannst svo dýrmætt að eiga það að hafa fætt elsku Magnús minn og finna ástina til hans. Eftir að hann var fæddur vorum við u.þ.b. 4 tíma uppá spítala með hann og ég sofnaði með hann við hlið mér sem mér fannst svo dýrmætt. Síðan komu börnin okkar og mamma mín til að sjá hann og við tókum myndir og skoðuðum kassann frá Gleym-mér-ey. Í honum voru tvær kanínur sem krakkarnir vildu eiga til minningar um Magnús og þau sofa alla nætur með kanínuna sína sem þau nefndu Magnús og þau vilja að ég kyssi Magnús líka góða nótt. Þetta hefur verið svo stór partur í sorgarferlinu fyrir þau að eiga þennan bangsa sem þeim finnst að Magnús hafi gefið þeim. Síðan kom presturinn okkar og blessaði hann og gaf honum nafnið sitt. Þetta var dýrmæt stund sem við áttum öll saman. En svo þurftum við að fara og það var ótrúlega erfitt að yfirgefa hann. Ég fékk að setja hann í kassann sem mér fannst vera seinasta mömmu hlutverkið sem ég hafði, á endanum setti ég yfir hann teppið sem ég heklaði fyrir hann.
Eftir þetta tóku við mjög erfiðir dagar en það besta sem ég gerði var að tala við fólk um Magnús og gráta. Við höfðum síðan samband við kirkjugarðana og hittum þar yndislega konu sem hjálpaði okkur að komast að niðurstöðu hvernig við vildum jarða hann. Við ákváðum að brenna hann og jarða í Sóllandi og svo þegar okkar tími er kominn þá förum við til hans í sama reit þannig hann mun liggja á milli okkar. Það var yndisleg kona sem leyfði okkur að koma til sín og velja okkur stuðlabergsstein og við létum útbúa plötu á steininn með nafni hans og fæðingardegi. Börnin okkar tóku þátt í þessu öllu, þau komu með að ákveða kirkjugarðinn og velja steininn og margt fleira. Þau höfðu rosalega gott af því að vera með okkur í þessu öllu.
Það var rosalega erfitt að komast að niðurstöðu um hvernig við vildum hafa þetta allt saman, en við erum rosalega hamingjusöm með þessar ákvarðanir.
Eftir u.þ.b. 3 mánuði fengum við niðurstöður úr rannsókninni á honum Magnúsi. Í ljós kom að dánarorsok var naflastengurinn var vafinn 4 sinnum í kringum hálsinn á honum og það hefur valdið því að hann fékk ekki næga næringu né súrefni. Hann hafði dáið stuttu eftir sónarinn sem við fórum í eftir tímann hjá ljósmóðurinni, eða um 14-15. viku. Naflastengurinn var líka ekki á miðjunni á fylgunni og óvenjulega langur. Þó ég sé þakklát að það var ekkert að honum þá er þetta mjög óhugnalegt og sorglegt að elsku litla gullið mitt hafi lent í svona slysi.
Ég fékk tvo mánuði í fæðingarorlof og ég mæli svo mikið að allir nýti sér það því maður verður að hlúa vel að sér og það er hellings vinna sem tók við eftir þetta áfall.
Ég mæli líka eindregið með því að taka myndir. Mörgum finnst það kannski óhugnalegt, en ég er svo ánægð að ég tók mynd af honum strax þegar hann fæddist því þetta er mikilvægasta myndin mín sem ég á af honum Magnúsi mínum.
Nú er ég aftur ólétt og komin tæplega 11 vikur og finn hvað ég er oft kvíðin að þetta gerist aftur. En ég reyni að tala við sjálfa mig og segja að ég get ekki ráðið þessu og eina sem ég ræð yfir er að njóta þess að vera aftur ólétt. En ég mun aldrei gleyma elsku Magnúsi og hann mun alltaf vera hjá okkur og búa í hjörtum okkar. Það er nefnilega nóg ást að gefa og maður getur elskað öll börnin sín, bæði þau sem eru hérna með mér og líka þau sem eru í pössun hjá englunum.
Það er desember. Jólin eru handan við hornið og undirbúningur þeirra ásamt jóladúlleríi ræður ríkjum. Ég nýt þess að vera í jólafríi með fallegu óléttukúluna mína. Ég hafði beðið lengi eftir þessu litla kraftaverki mínu. Hlakkaði svo mikið til nýrra verkefna og sá fyrir mér fæðingarorlof fullt af gleði og hamingju. Fæðingarorlof með syni mínum sem myndi hlýja hjarta mínu svo mikið. Ótal gönguferðir með barnavagn, heimsóknir, ferðalög og notalegheit. Allt það sem spennt verðandi mamma sér fyrir sér í hyllingum áður en barn hennar kemur í heiminn.
Þetta kvöld finnst mér litli drengurinn minn hafa hreyft sig töluvert minna en venjulega. Þetta kvöld sparkar hann ekki kröftuglega eins og hann er vanur. Ég finn fyrir áhyggjum en segi sjálfri mér að vera ekki að stressa mig, það er örugglega í lagi með barnið. Ég sofna en sef ekki vel. Þegar ég vakna um fimm leitið veit ég að eitthvað er að. Það er eitthvað öðruvísi. Svo sterk tilfinning. Ég næ í hjartsláttarhlustunartækið. Þetta tæki hafði bjargað geðheilsu minni áður en barnið fór að hreyfa sig mikið. Ég hafði ekki notað það í þónokkrar vikur, en fyrir tilviljun athugaði ég hjartsláttinn daginn áður. Hann var svo fullkominn. En þennan morgun, 21. desember var aðeins einn hjartsláttur. Það var minn. Ég leitaði og leitaði. Minnti sjálfa mig á að þessi litli ófæddi sonur minn hefði oft verið prakkari þegar ég leitaði að hjartslættinum hans. En það var enginn. Ekkert. Engin hreyfing, enginn hjartsláttur.
Klukkan er að verða átta þegar ég loks hringi á sjúkrahúsið. Segi að ég sé hrædd um að eitthvað sé að. Vantrúuð ljósmóðirin segir að ég megi nú svosem koma. Svosem. Hún ætlar aldeilis að sýna mér að hún sé klárari en ég og finna þennan hjartslátt. Löngu seinna, svo alltof löngu er hún farin að fölna. Ég segi henni að það sé ekki hjartsláttur þarna. Þó ég voni svo heitt og innilega að ég hafi rangt fyrir mér. Gerðu það litla barn, vertu lifandi. Hreyfðu þig, gerðu það!! Það er kallaður út læknir. Hann kveikir á sónartækinu. Ég horfi í augu hans og hann þarf ekki að segja neitt. Ég veit að barnið mitt er dáið.
Nokkru seinna fer ég heim. Algjörlega stjörf. Búin á því. Vá hvað lífið hatar mig mikið. Hvað gerði ég til að verðskulda þetta? Af hverju ég? Af hverju mitt barn? Á að mæta aftur snemma morguninn eftir til að eignast barnið mitt. Son minn sem er dáinn. Ég veit ekki hvort ég lifi þetta af. Veit ekki hvort ég muni einhverntíman brosa aftur. Ég sit á rúminu mínu og strýk endalaust yfir litlu nettu kúluna með syni mínum. Óska þess endalaust að þetta sé draumur. Vondur draumur sem ég muni vakna af sem allra fyrst. Ég hringi í nánustu vini mína og segi þeim stöðuna. Fæ stresskast yfir að vera ekki með klárt nafn á barnið mitt. Finnst skyndilega ekkert af þeim nöfnuð sem ég hafði í huga passa litla drengnum. Opna einhverja nafnasíðu þar sem ég hafði merk við nöfn sem mér fannst falleg. Þarna er það, beint á móti mér. Skyndilega gat ég valið nafn á barnið mitt á örskotsstundu og áttaði mig á að allir þeir hringir sem ég hafði farið í nafnapælingum höfðu verið óþarfir. Ég fór í sturtu og horfði á nakinn líkama minn í speglinum. Ég horfði í augu mín þar sem suttu áður hafði verið svo mikil gleði. Nú voru þau full af sorg. Mér fannst svo gaman að vera ólétt. En nú horfði ég á nakinn óléttan líkamann minn í síðasta skipti. Óléttan líkama með dánu barni.
Það er 22. desember. Ég mæti á sjúkrahúsið og byrjað er að koma fæðingu af stað. Þetta er ekki fæðing sem endar með lifandi barni. Barnsgráti og gleðitárum. Það er ekki mikið til að hvetja mig áfram, þó ég sé farin að hlakka til þegar barnið loks kemst í heiminn. Fimmtán tímum síðar fæddist Pétur Emanúel eftir tæplega 30 vikna meðgöngu. Svo lítill, svo fullkominn. Svo hlýr og það var svo gott að fá hann í hendurnar. Í fjarska heyrist barnsgrátur. Ég horfði á litla barnið mitt og óska þess svo heitt að ég ætti líka barn sem gréti. Ég klæði Pétur Emanúel í föt og nýt þess að hafa barnið mitt hjá mér. Horfi á hann endalaust. Vissi ekki að það væri hægt að elska einhvern svona mikið. Það sem ég er líka þakklát fyrir tilvist hans. Fyrir tímann sem ég fékk að vera ólétt. Fyrir minningarnar um hann sem urðu til á meðgöngunni. Fyrir að fá að hafa litla drenginn minn hjá mér um stund. Kælivaggan var nýkomin á sjúkrahúsið. Ljósmæðurnar hófust handa við að koma henni í gang svo ég gæti haft Pétur Emanúel hjá mér eina nótt. Við sofum hlið við hlið, ég í rúminu og hann í vöggunni við hlið mér. Þegar ég vakna morguninn eftir, á þorláksmessu, korter í jól var allt svo óraunverulegt. Ég teigi mig í vögguna. Tek son minn upp. Hann er kaldur. Ískaldur. Ég virði fyrir mér þetta litla barn. Barnið sem gerði mig að mömmu. Ég á að fara heim af sjúkrahúsinu. Heim, með ekkert barn. Hvernig fer maður af því? Hvar finnur maður styrkinn til þess að kyssa barnið sitt bless og skilja það eftir? Hvenær fæ ég að sjá hann aftur?
Heima. Dagarnir líða svo hægt og hljótt. Kertaljósin loga endalaust. Jólin líða án þess að ég vilji mikið af þeim vita. Tárin hafa runnið endalaust. Það er kominn 30. desember. Dagurinn sem ég fæ loksins að sjá Pétur Emanúel aftur. Ég hlakkaði til um leið og mér fannst erfitt að eftir þennan dag myndi ég ekki sjá hann aftur. Þarna var hann í ferðakistunni sem hann kom í af sjúkrahúsinu. Ég faðmaði hann að mér í síðasta sinn. Átti svo erfitt með að leggja hann í fallega hvíta rúmið sitt. En það verður að sleppa. Ég lagði hann niður og bjó um barnið mitt í síðasta sinn. Seinna um daginn var lítil og mjög látlaus kveðjuathöfn. Ég setti lokið á kistuna. Gekk þungum skrefum út í kirkjugarðinn með kistuna sem inniheldur það sem ég elska mest í lífinu. Barnið mitt. Barnið mitt í kistu ofan í jörðinni. Þetta er svo fullkomlega rangt. Ætti ekki að vera möguleiki. Enginn ætti að þurfa að standa í þessum sporum. En lífið er hverfult og ósanngjarnt.
En lífið heldur áfram. Mjög hægt og mjög erfiðlega fyrstu vikurnar og mánuðina. Loks fer að rofa til, en samt er alltaf svo stutt í tárin. Ég fór í kirkjugarðinn hvern einasta dag í langan tíma. Enn í dag, nú þegar Pétur Emanúel er orðinn þriggja ára finnst mér ferðir að leiðinu hans mikilvægar. Ég hef lagt mig fram við að halda minningu sonar míns lifandi og mun sjá til þess að börnin mín sem ég hef verið svo heppin að eignast á lífi fái að kynnast eins og hægt er bróður sínum á himnum. Það mun alltaf vanta eitt barn í fjölskylduna mína. Stóra bróður sem býr á himnum. En Pétur Emanúel verður alltaf einn af okkur því svo stór eru sporin sem litlu fæturnir hans skildu eftir í hjarta mínu.
Þegar gleðin breytist í sorg, fósturmissir
Bæklingar um forvarnir
Spörkin telja er verkefni um minnkaðar fósturhreyfingar sem Gleym mér ei stóð fyrir í samstarfi við Ljósmæðrafélag Íslands, heilsugæsluna og Landspítala Háskólasjúkrahús, með stuðningi frá heilbrigðisráðuneytinu og Landlæknisembættinu.
Allar verðandi mæður fá bæklinginn í mæðravernd þar sem fjallað er um hreyfingar barns á meðgöngu og hvernig hægt sé að stuðla að heilbrigðri meðgöngu. Einnig var gert myndband sem verðandi mæðrum er sýnt í mæðravernd.
Að Verða Foreldri er bæklingur með öllum helstu upplýsingum um meðgöngu og nokkrum góðum ráðum.
Gagnlegar Upplýsingar
Sálgæsla presta og djákna á Landspítalanum
Þeim sem missa á meðgöngu stendur til boða viðtal við djákna eða prest sem hefur sérþekkingu á áföllum og sorg. Viðtölin eru óháð trúarskoðunum.