Þjónusta —
GLEYM MÉR EI STYÐUR VIÐ EINSTAKLINGA OG FORELDRA SEM MISSA BÖRN Á MEÐGÖNGU OG Í/EFTIR FÆÐINGU MEÐ ÞVÍ AÐ BJÓÐA UPP Á RÁÐGJAFASAMTAL, JAFNINGJAFRÆÐSLU, STUÐNINGSHÓPA, SAMVERUSTUNDIR OG FRÆÐSLU. EINNIG HELDUR FÉLAGIÐ ÚTI ÝMSUM STUÐNINGSHÓPUM Á FACEBOOK.
Ráðgjafasamtal
Gleym mér ei býður upp á samtal fyrir foreldra sem misst hafa barn á meðgöngu, eftir fæðingu eða á fyrstu dögum/vikum eftir fæðingu barns.
Samtalið er ætlað að gefa upplýsingar um þann stuðning og þjónustu sem í boði er, en getur líka verið tækifæri til að ræða við einhvern sem hefur gengið í gegnum svipaða reynslu.
Samtölin fara fram í Sorgarmiðstöð (Lífsgæðasetur, Hafnarfirði) eða í gegnum síma/fjarfundabúnað. Hægt er að óska eftir samtali með því að senda póst á gme@gme.is.
Stuðningshópastarf
Missir á viku 22 eða meira
Landspítali Háskólasjúkrahús býður foreldrum/einstaklingum, sem misst hafa barn eftir 22 vikna meðgöngu, í stuðningshópastarf. Iðulega eru tveir hópar skipulagðir, einn að vori og annar að hausti. Athugið að gott er að láta sex mánuði líða frá missinum áður en þú kemur í hópastarf. Nánari upplýsingar og skráning á bjarneyh@landspitali.is
Missir á viku 12-21
Gleym mér ei, í samstarfi við Sorgarmiðstöð, hefur boðið upp á stuðningshópastarf fyrir foreldra og einstaklinga sem missa á viku 12-21, en aðeins er farið af stað með hópinn ef hann er fullskipaður. Ef þú hefur áhuga á stuðningshópastarfi árið 2024, sendu umsókn hér. Haft verður samband ef full þátttaka fæst.
Æskilegt er að um sex mánuðir séu liðnir frá missi þegar stuðningshópurinn fer af stað. Stuðningshópastarfið er iðulega í sex skipti og staðfestingargjald er 3.000 kr. Ef báðir foreldrar ætla að mæta verða þeir báðir að skrá sig. Staðfestingargjald á að greiða eftir að hópstjórar hafa staðfest skráningu með samtali.
Nánari upplýsingar hjá gme@gme.is.
Missir undir 12 vikum
Ekki er boðið upp á stuðningshópa fyrir þennan missi eins og er, en Gleym mér ei er með samverustund þann 26. október 2023 fyrir fólk sem misst hefur á meðgöngu undir 12 vikum.
Einnig bjóðum við upp á fræðslumyndband um missi undir 12 vikum og reynslusögu. Við hvetjum alla til að koma á erindið Nýlega misst hjá Sorgarmiðstöðinni.
Hægt er að óska eftir ráðgjafasamtali eða frekari upplýsingum hjá gme@gme.is.
Jafningjastuðningur
Það getur verið hjálplegt að ræða við einhvern sem hefur gengið í gegnum svipaða reynslu, einhvern sem hefur þann skilning sem einungis fæst með því að upplifa hlutina sjálf/ur.
Hægt er að óska eftir jafningjastuðningi á vef Sorgarmiðstöðvar.
Reynt er eftir bestu getu að para saman jafningja með svipaða reynslu. Misjafnt er hvernig stuðningurinn fer fram. Sumir ræða saman í síma á meðan aðrir hittast á kaffihúsi eða fara í göngutúr. Oftast er hist í 3-6 skipti, en báðir aðilar mega draga sig út úr því hvenær sem er.
Þau sem veita jafningjastuðning á vegum Gleym mér ei og Sorgarmiðstöðvar hafa misst barn á meðgöngu, í fæðingu eða á fyrstu dögum/vikum eftir fæðingu barns. Þau hafa sótt námskeið um jafningjastuðning og setið erindi um sorg og sorgarviðbrögð, og vinna eftir siðareglum Sorgarmiðstöðvar og skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu.