Þegar foreldrar missa barn á meðgöngu er mikilvægt að hjálpa þeim að skapa minningar um barnið og búa til fallega umgjörð í kringum missinn. Gleym mér ei hefur átt gott samstarf við LSH um árabil, m.a. með því að gefa minningarkassa til foreldra, lítil föt á börnin eða öskju fyrir þau allra minnstu, kælivöggur og myndavélar.
Minningarkassar
Reynsla okkar sýnir að minningarkassinn skipti sköpum í sorgarúrvinnslu foreldra og hjálpar til við að varðveita minningu um það litla líf sem aldrei varð.
Minningarkassinn er vel útbúinn og fallegur. Í honum má finna armbönd frá Aurum fyrir foreldra og barn/börn, kertastjaka, box fyrir hárlokk, leirmót fyrir litlar fætur og hendur, kanínubangsa og fræðsluefni. Sjálfboðaliðar sauma klút innan í kassann, hekla kanínur og pakka í þá reglulega, en það gerir hvern minningarkassa sérstakan. Um 100 slíkir kassar eru gefnir á ári.
Gleym mér ei á reglulegt samtal með ljósmæðrum og aðilum innan LSH til að fara yfir hvað vantar og reynir eftir bestu getu að komast á móts við þarfir deildarinnar svo að hægt sé að styðja sem best við foreldra sem missa.
Kælivöggur
Að missa barnið sitt er eitt það erfiðasta sem foreldrar upplifa á lífsleiðinni. Tilhlökkun og væntingarnar um lífið sem er í vændum hrynja til grunna. Sá litli tími, sem foreldrar fá með barninu sínu, er því dýrmætur.
Kælivöggur Gleym mér ei hjálpa til við að lengja þann tíma sem foreldrar fá með barninu sínu og, í sumum tilvikum, gefur foreldrum þann kost að geta farið með barnið heim, fengið til sín nánustu aðstendur og átt kveðjustund í sínu umhverfi.
Kælivöggur hafa verið gefnar til útfararstofu Kirkjugarðanna, Landspítala Háskólasjúkrahúss, á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi.