Stuðningur við foreldra
Minningarkassar
Reynsla okkar sýnir að minningarkassinn skipti sköpum í sorgarúrvinnslu foreldra og hjálpar til við að varðveita minningu um það litla líf sem aldrei varð.
Minningarkassinn er vel útbúinn og fallegur. Í honum má finna armbönd frá Aurum fyrir foreldra og barn/börn, kertastjaka, box fyrir hárlokk, leirmót fyrir litlar fætur og hendur, kanínubangsa og fræðsluefni. Sjálfboðaliðar sauma til að mynda klúta inn í kassana og pakka í þá reglulega, en það gerir hvern minningarkassa sérstakan. Um 150 slíkir kassar eru gefnir á ári.
Gleym mér ei á reglulegt samtal með ljósmæðrum og aðilum innan LSH til að fara yfir hvað vantar og reynir eftir bestu getu að komast á móts við þarfir deildarinnar svo að hægt sé að styðja sem best við foreldra sem missa.
Kælivöggur
Að missa barnið sitt er eitt það erfiðasta sem foreldrar upplifa á lífsleiðinni. Tilhlökkun og væntingarnar um lífið sem er í vændum hrynja til grunna. Sá litli tími, sem foreldrar fá með barninu sínu, er því dýrmætur.
Kælivöggur Gleym mér ei hjálpa til við að lengja þann tíma sem foreldrar fá með barninu sínu og, í sumum tilvikum, gefur foreldrum þann kost að geta farið með barnið heim, fengið til sín nánustu aðstendur og átt kveðjustund í sínu umhverfi.
Kælivöggur hafa verið gefnar til útfararstofu Kirkjugarðanna, Landspítala Háskólasjúkrahúss, á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi.
Englaklæði
Englateppi uppskrift
Steinunn Kristín hefur gert nýja fallega englateppa uppskrift fyrir okkur. Við viljum að öll teppin séu gerð í pörum svo að annað þeirra geti fylgt barninu og hitt farið heim með foreldrum.
Við viljum minna fólk á teppin eiga að berast til okkar í Lífsgæðasetrið, Suðurgötu 41 í Hafnafirði. Við biðjum fólk um að fara ekki með þau á Landspítalann, við munum sjá um að koma þeim áleiðis þangað.
PDF skjal með uppskrift eftir Steinunni HÉR
Aníta Ýr Bergþórsdóttir hefur gefið okkur þessa fallegu uppskrift .
PDF skjal með uppskrift eftir Anítu HÉR
Hekluð hjörtu
Jóhanna Lind Brynjólfsdóttir hefur gefið okkur þessa fallegu uppskrift .
PDF skjal með uppskrift Jóhönnu má finna HÉR