SAMÞYKKTIR FÉLAGSINS 

GLEYM MÉR EI STYRKTARFÉLAG

Kt. 501013-1290

1. gr. Nafn og aðsetur

Félagið heitir Gleym mér ei styrktarfélag og er það skammstafað GME.

Aðsetur og varnarþing er í Lífsgæðasetrinu, Hafnarfirði, Suðurgötu 41, 220 Hafnarfirði.

 2. gr. Tilgangur og markmið

Tilgangur og markmið GME er að efla þjónustu, réttindi og stuðning við þau sem missa barn/börn á meðgöngu, í fæðingu eða á fyrstu mánuðum eftir fæðingu (í barneignarferlinu), og styrkja ýmis verkefni í þágu þeirra. Markmiðum félagsins er t.a.m. náð með því að:

  • Efla þekkingu og skilning á missi í barneignarferlinu með almennu kynningarstarfi og útgáfu fræðsluefnis;
  • Vera málsvari þeirra sem missa í barneignarferlinu og beita sér fyrir lagalegum og kerfislægum úrbótum;
  • Efla samstarf við heilbrigðisstarfsfólk, fagaðila og aðra sem veita stuðning og þjónustu til þeirra sem missa í barneignarferlinu;
  • Styrkja verkefni sem lúta að því að varðveita minningu barna, s.s. búa til og dreifa Minningarkössum, veita búnað á fæðingarstofur, bæta aðgengi að upplýsingum, o.fl.;
  • Efla stuðning í sorgarúrvinnslu foreldra og aðstandenda með samtölum, stuðningshópastarfi, jafningjastuðning og annarri samveru;
  • Standa að viðburðum sem efla samstöðu með og stuðning við foreldra sem missa og aðstandendur þeirra;
  • Afla fjárstuðnings meðal einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera til verkefna GME.

GME starfar í almannaþágu, án hagnaðarsjónarmiða.

3. gr. Félagsaðild

Félagið er opið öllum sem hafa misst barn á meðgöngu, í fæðingu eða á fyrstu mánuðum eftir fæðingu. Félagið er einnig opið aðstandendum foreldra sem hafa misst í barneignarferlinu.

Félagsaðild veitir einstaklingum rétt til framboðs í stjórn og trúnaðarhlutverk, sem og kosningarétt á aðalfundi.

Félagsgjöld eru ákvörðuð á aðalfundi GME ár hvert.

4. gr. Starfs- og reikningsár

Starfsár félagsins er frá 1. mars til 28. febrúar ár hvert. Reikningsár félagsins er almanaksárið. Stjórn skal hafa ársreikning tilbúinn fyrir 28. febrúar, staðfestan af endurskoðanda, endurskoðunarfyrirtæki, skoðunarmanni eða trúnaðarmanni úr hópi félagsmanna.

5. gr. Stjórn

Stjórn félagsins skal skipuð 5-7 meðstjórnendum og 2-5 til vara. Aðeins félagsmenn mega bjóða sig fram í stjórn, sem kosin er á aðalfundi ár hvert. Hver stjórnarmaður skal kjörinn til eins árs í senn, en skal reynt að tryggja eftir fremsta megni að eigi meira en helmingur stjórnar sé að taka sæti í fyrsta skipti. Formannskjör fer einnig fram á aðalfundi ár hvert.

Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda og skiptir með sér verkum. Stjórn skal starfa samkvæmt starfsreglum stjórnar og skyldum um trúnað. Formaður eða framkvæmdastjóri boða til funda. Stjórnarfundur er löglegur (ákvarðanabær) ef meirihluti stjórnar mætir. Ef atkvæði eru jöfn á fundi hefur atkvæði formanns (varaformanns í fjarveru formanns) tvöfalt vægi. Meðstjórnendur hafa atkvæðisrétt á stjórnarfundum. Varamenn stjórnar eru áheyrnarfulltrúar.

Kosið skal í embætti á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar. Einnig skulu starfsreglur stjórnar      teknar fyrir og gerðar breytingar ef þörf krefur. Breytingar á starfsreglum þurfa samþykki meirihluta stjórnar. Ný stjórn skal skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu eins fljótt og auðið er.

Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

Hætti meðstjórnandi á tímabilinu skal varamaður koma inn í hans stað. Hætti formaður á tímabilinu skal varaformaður taka sæti í hans stað fram að næsta aðalfundi. Láti meðstjórnandi      af embætti innan stjórnar skal nýr meðstjórnandi kosinn í embættið eins fljótt og kostur er.

Stjórn og þau sem gegna trúnaðarhlutverki fyrir GME þurfa að gæta að eftirfarandi skyldum:

  • Að vinna í samræmi við tilgang og markmið GME, og gæta hagsmuna þess.
  • Að virða lög og reglur félagsins í hvívetna, þar á meðal samþykktir, starfsreglur, siðareglur og trúnaðarskyldu.
  • Stjórn getur vísað stjórnarmeðlimum úr félaginu, með meirihluta atkvæða, teljist þeir brotlegir við lög og reglur félagsins. Sú ákvörðun tekur gildi strax.

6. gr. Kjörnefnd

Kjörnefnd er kosin á stjórnarfundi og skulu vera í henni a.m.k. 2-3 meðstjórnendur. Kjörnefnd      ber ábyrgð á, skipuleggur og framkvæmir kosningar til stjórnar GME, sem fram fer á aðalfundi.

Kjörstjórn skal tryggja nægt framboð í embætti innan stjórnar. Berist ekki nægilega mörg framboð er kjörstjórn heimilt að leita eftir frekari framboðum og skal reyna eftir fremsta megni að tryggja fjölbreytni í hópi frambjóðenda, m.a. með tilliti til reynslu sem gagnast starfsemi GME. Framboðsfresti til stjórnarsetu lýkur tveimur sólarhringum fyrir aðalfund.

Kjörstjórn gengur úr skugga um að frambjóðendur njóti kjörgengis, sbr. 3. gr.

7. gr. Aðalfundur

Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. mars ár hvert og skal boða til hans með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Í aðalfundarboði skal gera grein fyrir dagskrá fundarins.

Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti félagsmanna ræður úrslitum mála.

Rétt til setu og atkvæðis á aðalfundi og í kosningum eiga félagar GME, sbr. 3. gr.

Breytingar á lögum og samþykktum skal taka fyrir á aðalfundi og teljast samþykktar með ⅔ hluta atkvæða fundarmanna.

Aðalfund má halda rafrænt. Félagsmenn sem mæta rafrænt mega kjósa um mál sem tekin eru fyrir á fundinum.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

Kosning fundarstjóra og fundarritara

Skýrsla stjórnar lögð fram

Ársreikningur lagður fram til samþykktar

Lagabreytingar

Ákvörðun félagsgjalds

Kosning stjórnar og stjórnarformanns

Önnur mál

8. gr. Fjármögnun

Ákvörðun um félagsgjald og innheimtu þeirra skal tekin á aðalfundi.

GME fjármagnar starfsemi sína með styrkjum frá einstaklingum, félagasamtökum, fyrirtækjum og frá hinu opinbera.

Rekstrarafgangi af starfsemi félagsins skal varið í samræmi við tilgang og markmið GME, sbr. 2. gr.

Félagsmenn njóta ekki fjárhagslegs ávinnings af starfsemi félagsins.

9. gr. Ákvörðun um slit

Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til þeirra góðgerðarmála sem ákveðin verða á slitafundi.

Lögin voru samþykkt á stofnfundi 3.október, 2013.

Breytingar á 1.-37. greinum samþykktar á aðalfundi 27. febrúar 2025