Haustið 2023 héldum við fjórar opnar samverustundir. Ein af þessum stundum var fyrir fólk sem hafði misst á meðgöngu, eða fljótlega eftir fæðingu, fyrir mörgum árum síðan. Þarna komu einstaklingar sem höfðu borið harm sinn í brjósti í langan tíma, en á árum áður var viðurkenning samfélagsins á slíkum missi lítil sem engin. Margir foreldrar sáu ekki barnið sitt, því var oft ekki gefið nafn og það var jafnvel grafið á óþekktum stað.

Missir fyrir áratugum

Haustið 2023 héldum við fjórar opnar samverustundir. Ein af þessum stundum var fyrir fólk sem hafði misst á meðgöngu, eða fljótlega eftir fæðingu, fyrir mörgum árum síðan. Þarna komu einstaklingar sem höfðu borið harm sinn í brjósti í langan tíma, en á árum áður var viðurkenning samfélagsins á slíkum missi lítil sem engin. Margir foreldrar sáu ekki barnið sitt, því var oft ekki gefið nafn og það var jafnvel grafið á óþekktum stað.

Eftir hverja samverustund fundum við að við vildum gera meira. Við fundum að gömlu sorgirnar þurftu meira pláss og við viljum skapa vettvang fyrir aukna úrvinnslu. Nú höfum við því ákveðið að bjóða upp á hópastarf fyrir fólk sem missti fyrir árið 1990. Þetta verða fjórar kvöldstundir (11. febrúar, 25. febrúar, 11. mars og 25. mars) þar sem umræður verða leiddar af Sigríði Kristínu Helgadóttur.

Sigríður Kristín Helgadóttir prestur á minningarstund Gleym mér ei 15. október 2024
Sigríður Kristín á minningarstundinni okkar 15. október

Sigríður flutti fallegt erindi á minningarstundinni okkar 15. október síðastliðinn. Hún hefur starfað sem prestur frá árinu 2000 og þjónar nú Fossvogsprestakalli. Hún lauk Fjölskyldumeðferðarnámi frá Endurmenntun HÍ 2011. Var með hópastarf og fræðslu hjá Ljónshjarta og hefur verið samferða Sorgarmiðstöð og tekið þátt í ýmsu á hennar vegum frá stofnun. Að auki, og það sem stendur hjarta hennar næst, er að hún er eiginkona, mamma fjögurra stúlkna, tengdamamma og amma.

Við hvetjum fólk sem býr að þessari sáru reynslu að skrá sig. Á skráningarforminu biðjum við ykkur að tiltaka hvort þið komið ein eða með maka/aðstandenda. Það verður takmarkaður fjöldi sem kemst að.

Skráning