Sr. Sigríður Kristín Helgadóttir

Græðslan á sér stað í gegnum sameiginlega reynslu

Árið 2023 hélt Gleym mér ei samverustundir þar sem fólk sem misst hefur barn á meðgöngu eða fljótlega eftir fæðingur kom saman. Þar var ein þessara stunda helguð fólki sem hafði misst fyrir mörgum árum. Þarna komu einstaklingar sem höfðu borið harm sinn í hljóði í langan tíma, en á árum áður var viðurkenning samfélagsins á slíkum missi lítil sem engin. Við fundum strax að það þurfti að gefa þessari sorg meira pláss og í síðasta mánuði fórum við af stað með hópastarfið Gamlar sorgir fyrir þau sem misstu fyrir árið 1990.

Sigríður Kristín Helgadóttir prestur í Fossvogsprestakalli leiðir umræðurnar í hópastarfinu. Sigríður flutti fallegt erindi á minningarstundinni okkar 15. október 2024 en hún hefur starfað sem prestur frá árinu 2000 og lauk Fjölskyldumeðferðarnámi frá Endurmenntun HÍ 2011. Hún var einnig með hópastarf og fræðslu hjá Ljónshjarta og hefur verið samferða Sorgarmiðstöð og tekið þátt í ýmsu á hennar vegum frá stofnun. Hjá Gleym mér ei hefur Sigríður stýrt stuðningshópastarfi fyrir þau sem missa á 12. til 22. viku meðgöngu. Að auki, og það sem stendur hjarta hennar næst, er að hún er eiginkona, mamma fjögurra stúlkna, tengdamamma og amma.

„Þegar fólk var að hafa samband við Gleym mér ei til að spyrjast fyrir um hvaða stuðningur væri í boði fór fljótt að bera á því að margar ömmur stigu fram, minntust loksins á sinn miss og töluðu um að þær vildu óska þess að álíka stuðningur hefði verið fáanlegur á þeim tíma sem þær gengu í gegnum þessa reynslu. Þörfin var því greinilega mikil,“ útskýrir Sigríður og lýsir hópastarfinu enn frekar. „Þar hittast þátttakendur í fjögur skipti og strax í upphafi leggjum við áherslu á mikilvægi trúnaðar sem og þá staðreynd að við setjum sorgina ekki á vogarskálar. Sorg er bara sorg og ef við höfum þörf fyrir að ræða málin þá er um að gera að vinna út frá því. Í byrjun fundar leggjum við fram einhverja spurningu, svo er farið hringinn og fólk ræður hvort það svarar út frá sinni reynslu eða segir pass ef það treystir sér ekki til þess og vill heldur fá að hlusta. Það er í gegnum þessa sameiginlegu reynslu sem græðslan á sér stað. Fólk er kannski að setjast niður í fyrsta sinn og ræða þetta. Við finnum samkenndina og finnum hvernig hægt er að spegla sig í fyrsta sinn og ræða þetta. Við finnum samkenndina og finnum hvernig hægt er að spegla sig í upplifun og tilfinningum annarra. Oft áttar fólk sig á því að tilfinningin sem það hefur burðast með, og jafnvel upplifað skömm vegna hennar, er ekkert til að skammast sín fyrir.

„Jæja…“

Sigríður útskýrir að í hópastarfinu leggi þátttakendur sína sögu á borðið og í kjölfarið sé rætt um sorgina og hvernig sorgartilfinningar birtast fyrir hverjum og einum.
„Þarna skoðum við tilfinningarnar og hvort einhver líðan sé sterkari en önnur. Í þessu felst ákveðin úrvinnsla. Um leið og við erum búin að horfast í augu við okkur sjálf í þessu ferli förum við að skoða hvernig umhverfi okkar brást við á sínum tíma. Þá kemur jafnan upp eitt orð og það er orðið „jæja“. Margar kvennanna þekkja að hafa fengið að heyra þetta orð í því samhengi að girða sig í brók, nú sé þetta bara komið gott og að það þurfi að halda áfram með lífið. Yfirleitt þegar þær voru alls ekki tilbúnar að heyra það.“

Hún segir óuppgerðu sorgina geta verið mjög íþyngjandi ef við gefum okkur ekki tíma til að skoða hana. Það er einmitt það sem þátttakendurnir í hópastarfinu eru að gera, að horfast í augu við þessa gömlu sorg. „Hvað þetta, hvernig gerðist þetta og síðast en ekki síst hvernig tókst mér að lifa áfram?“ Þetta eru spurningar sem við veltum fyrir okkur. Oft komum við líka auga á styrkleikana okkar þegar við hefjum sorgarúrvinnslu. Oftar en ekki verður „Heyrðu, hér er ég og ég er nú bara alveg ágæt. Ég gat þetta,“ niðurstaðan úr því að halda af stað í þessa vegferð.

Engin gat lofað að það gengi betur næst

Sigríður á sjálf sína sögu um missi.
„Við hjón gengum í gegnum snemmbæran missi árið 1994 þegar við vorum mjög ung. Þá var ég bara svæfð uppi á spítala, vakna svo og fór heim. Fólkið í kringum mig sagði mér að það gengi betur næst en ég var mjög reið og sár en sýndi það aldrei. Málið var að ég vissi að þetta var nokuð sem engin gat í rauninni lofað mér, að það gengi betur næst. Þetta var nokkuð sem margar kvennanna í hópastarfinu tengdu líka við að hafa þurft að heyra – að það gengi bara betur næst. Svo voru þær jafnvel látnar liggja á sængurkvennadeildinni meðan þær voru að jafna sig eftir að hafa misst fullburða barn.“

Sigríður segist fagna því mjög að nálgun og viðurkenning á sorg sé að breytast í þjóðfélagsumræðunni. „Þetta er harðbýlt land og Íslendingar hafa jafnan farið mjög langt á hnefanum. Missir hefur orðið hluti af því að ganga í gegnum lífið sem þjóð. En þetta er að breytast og við erum að skoða betur núna hvaða áhrif missir hefur á líðan okkar, andlega og líkamlega heilsu, kynslóðirnar sem á eftir koma og hvað það er mikilvægt að gefa þessum tilfinningum vægi og ræða málin.“

Sorgin fer í tvær áttir

„Ég hugsa oft til hennar, litlu baunarinnar minnar eins og ég kallaði hana. Við maðurinn minn ræddum okkar missi afskaplega lítið á sínum tíma. En svo fórum við á hjónahelgi meira en áratug seinna og þá var það hann sem vildi opna á að ræða þetta. Við gerðum það og náðum líka að horfa á okkur sjálf á þessum tíma, þetta unga par sem gekk í gegnum þessa reynslu og hvernig við fórum á ólíkan hátt í gegnum tilfinningar okkar. Jólin á eftir kom hann mér svo á óvart og gaf mér jólaskraut með ártalinu 1994. Þannig heiðrum við minninguna.“

„Það skiptir miklu máli, eins og minningarkassar Gleym mér hafa sýnt, hvað þeir geta átt mikilvægan þátt í að leiða missinn í átt að fallegri minningu.“

„Út frá því að heyra í þessum konum í hópastarfinu er líka svo magnað að sjá hversu gríðarleg breyting hefur orðið á öllu okkar samfélagi. Það er nokkuð sem er svo stórkostlegt. Það sem skiptir máli er að muna að sorgartilfinningin – að sakna – kemur svo sterk inn vegna þess að hún getur farið í tvær áttir. Þú ert að sakna þess sem var og þú ert líka að sakna þess sem aldrei verður. Öllu þessu þarf að gefa vægi og hlúa að.“