Fræðsla og jafningjastuðningur

Gleym mér ei leggur mikið upp úr jafningjastuðningi í sorgarúrvinnslu, þ.e.a.s. að tryggja að foreldrar upplifi sig ekki eina í sorginni og fái stuðning og von frá þeim sem hafa gengið í gegnum svipaða reynslu.

Þegar gleðin breytist í sorg - fræðsluefni

Gleym mér ei hefur staðið fyrir gerð veglegs upplýsingabæklings fyrir foreldra sem missa, Þegar gleðin breytist í sorg. Þessi bæklingur er hluti af Minningarkassa Gleym mér ei og því afhentur syrgjendum strax.

Gleym mér ei hefur einnig gefið út minni bæklinga, Þegar gleðin breytist í sorg: Nokkur orð til aðstandenda og Þegar gleðin breytist í sorg: Snemmbúinn fósturmissir. 

Jafningjastuðningur og þjónusta

Aðstandendur Gleym mér ei veita jafningjastuðning með ýmsum hætti og lagt er upp úr að mæta syrgjendum þar sem þeir eru hverju sinni.

Um árabil hefur Gleym mér ei veitt syrgjendum ráðgjafaviðtal og í samstarfi við Sorgarmiðstöðina skipuleggur Gleym mér ei stuðningshópastarf og veitir faglegan jafningjastuðning. Einnig hefur Gleym mér ei skipulagt Samverustundir fyrir syrgjendur.

Til að auðvelda aðgang syrgjenda að reynslusögum og opna umræðuna, tók Gleym mér ei upp myndbönd með viðtölum við einstaklinga og foreldra sem höfðu misst á meðgöngu og í/eftir fæðingu. Myndböndin eru aðgengileg á YouTube og hafa náð til fjölda manns.

Gleym mér ei og Sorgarmiðstöð stóðu einnig fyrir gerð myndbands þar sem farið er yfir missi undir 12 vikum.

Eins heldur Gleym mér ei úti stuðningshópum á Facebook sem aðeins eru opnir þeim sem hafa upplifað missi á meðgöngu og í/eftir fæðingu. Er þeim ætlað að veita syrgjendum tækifæri á að deila sinni reynslu, heyra frá öðrum í svipaðri stöðu og fá ráð um hin ýmsu mál er snerta þennan viðkvæma hóp.