Opin samverustund: Að binda enda á meðgöngu
Það getur verið einstaklega sárt og erfitt ferli þegar vart verður um alvarlegan fósturgalla eða veikindi, og foreldrar þurfa að taka ákvörðun um að binda enda á meðgöngu. Við bjóðum einstaklingum og pörum/foreldrum sem deila slíkri reynslu að koma saman. Umræður verða leiddar af fagaðilum og einstaklingum með reynslu af slíkum missi.
Um samverustundirnar
Gleymmérei styrktarfélag efnir til þematengdra samverustunda í Sorgarmiðstöðinni annan hvern fimmtudag í haust kl. 19.30-22.00. Hver stund er tileinkuð ákveðnum hópi foreldra sem misst hafa barn á meðgöngu eða fljótlega eftir fæðingu, og er ætlað að bjóða fólki með svipaða reynslu að koma saman og fá stuðning frá hvort öðru í öruggu umhverfi.
Samverustundirnar byggja á aðferðum og reynslu úr stuðningshópastarfi Gleymmérei og Sorgarmiðstöðvarinnar.
Þemun eru valin út frá umræðum sem skapast hafa í stuðningshópastarfi og í jafningjastuðningi Gleymmérei, sem og eftirspurnum sem borist hafa félaginu.