Gleym mér ei konur ásamt Ingibjörgu Jónsdóttur deildarstjóra fæðingardeildar SAk.

Akureyrarferð 2025

Gleym mér ei konur fóru norður á Akureyri síðastliðinn fimmtudag og dvöldu þar dagana 16. til 18. október. Á fimmtudeginum áttum við gott samtal á kvennadeildinni þar sem við fengum að kynnast aðstæðum og afhentum meðal annars lyklakippurnar okkar fyrir þau sem missa á fyrsta þriðjung meðgöngunnar. Við höfum alltaf verið í góðum samskiptum við Sjúkrahúsið á Akureyri og því var yndislegt að fá að heimsækja deildina og koma með nýjungar frá okkur þar inn.

Gleym mér ei konur fyrir utan SAk
Gleym mér ei konur fyrir utan SAk
Lyklakippur fyrir öll þau sem missa á fyrsta þriðjung meðgöngunnar
Lyklakippur fyrir öll þau sem missa á fyrsta þriðjung meðgöngunnar

Eftir heimsókn okkar á spítalann var förinni heitið í Lystigarðinn þar sem við hittum þau Steinunni Erlu og Friðrik sem hlupu í minningu sonar síns, Gunnars Helga, í Reykjavíkurmaraþoninu. Þau halda úti Minningarsjóði í hans nafni og allur ágóði sem safnaðist hjá þeim í maraþoninu í ár rennur til okkar. Við erum þeim, og öðrum sem hlupu fyrir sjóðinn, innilega þakklát.

Um kvöldið héldum við síðan fallega minningarstund í safnaðarheimili Glerárkirkju þar sem Hólmfríður Anna Baldursdóttir stjórnarformaður félagsins var með ávarp fyrir gesti og séra Stefanía Steinsdóttir var með erindi. Á milli erinda flutti söngvarinn Ívar Helgason fyrir okkur nokkur hugljúf og falleg lög. Við þökkum öllum þeim sem komu fram þetta kvöld.

Hittingur í Lystigarðinum
Hittingur í Lystigarðinum
Glerárkirkja
Glerárkirkja
Hólmfríður Anna Baldursdóttir með erindi á minningarstundinni okkar í safnaðarheimili Glerárkirkju 2025
Hólmfríður Anna Baldursdóttir

Á föstudeginum voru tekin áframhaldandi samtöl og síðan lág leið okkar í kirkjugarðinn á Naustahöfða. Þar tókum við gott spjall, löbbuðum um garðinn og færðum þeim lítið ker undir litlu hjörtun sem fylgja kippunum. Þetta var mjög dýrmætur tími sem við áttum á Akureyri og okkur var tekið þar með opnum örmum – takk fyrir okkur og ykkur

Kerið fyrir litlu hjörtun
Kerið fyrir litlu hjörtun
Kirkjugarðurinn á Naustahöfða
Kirkjugarðurinn á Naustahöfða