Gleym mér ei konur fóru norður á Akureyri síðastliðinn fimmtudag og dvöldu þar dagana 16. til 18. október. Á fimmtudeginum áttum við gott samtal á kvennadeildinni þar sem við fengum að kynnast aðstæðum og afhentum meðal annars lyklakippurnar okkar fyrir þau sem missa á fyrsta þriðjung meðgöngunnar. Við höfum alltaf verið í góðum samskiptum við Sjúkrahúsið á Akureyri og því var yndislegt að fá að heimsækja deildina og koma með nýjungar frá okkur þar inn.


Eftir heimsókn okkar á spítalann var förinni heitið í Lystigarðinn þar sem við hittum þau Steinunni Erlu og Friðrik sem hlupu í minningu sonar síns, Gunnars Helga, í Reykjavíkurmaraþoninu. Þau halda úti Minningarsjóði í hans nafni og allur ágóði sem safnaðist hjá þeim í maraþoninu í ár rennur til okkar. Við erum þeim, og öðrum sem hlupu fyrir sjóðinn, innilega þakklát.
Um kvöldið héldum við síðan fallega minningarstund í safnaðarheimili Glerárkirkju þar sem Hólmfríður Anna Baldursdóttir stjórnarformaður félagsins var með ávarp fyrir gesti og séra Stefanía Steinsdóttir var með erindi. Á milli erinda flutti söngvarinn Ívar Helgason fyrir okkur nokkur hugljúf og falleg lög. Við þökkum öllum þeim sem komu fram þetta kvöld.



Á föstudeginum voru tekin áframhaldandi samtöl og síðan lág leið okkar í kirkjugarðinn á Naustahöfða. Þar tókum við gott spjall, löbbuðum um garðinn og færðum þeim lítið ker undir litlu hjörtun sem fylgja kippunum. Þetta var mjög dýrmætur tími sem við áttum á Akureyri og okkur var tekið þar með opnum örmum – takk fyrir okkur og ykkur



