Gleym mér ei styrktarfélag bauð til árlegu minningarstundarinnar okkar miðvikudaginn 15. október klukkan 20 í safnaðarheimili Kópavogskirkju. Sá dagur er á heimsvísu tileinkaður missi á meðgöngu og barnsmissi og því á hann stóran stað í hjörtum okkar. Tilgangurinn með því að halda minningarstund 15. október ár hvert er að styðja við foreldra og aðra aðstandendur í sorginni og jafnframt að skapa umfjöllun um málefni sem áður fyrr virtist ekki mega ræða.

Í ár var Hólmfríður Anna Baldursdóttir stjórnarformaður félagsins með ávarp fyrir gesti, Dagbjört Eiríksdóttir djákni með hugvekju og Aníta Rós Tómasdóttir sagði okkur söguna sína. Söngkonan Una Torfadóttir flutti einnig fyrir okkur nokkur hugljúf og falleg lög og boðið var upp á léttar veitingar. Viðburðinum var streymt á Facebook síðu félagsins.



Frá 14. til 16. október voru minningarstundir á fimm stöðum víðsvegar um allt land. Við urðum hálf meyrar að sjá allar þessar minningarstundir á ólíkum stöðum á landinu og okkur draumur er sá að þetta haldi áfram svona. En við áætlum að um 90 til 110 manns hafi mætt til okkar í safnaðarheimili Kópavogskirkju og það voru fjölmargir sem horfðu á streymið okkar. Við áttum saman fallega stund og minntumst elsku barnanna sem ekki fengu að dvelja með okkur.

