Við erum stoltar að tilkynna að við höfum tekið yfir ljósmyndun barna sem fæðast andvana eftir 22. viku meðgöngu á Landspítalanum.
Foreldrum sem fæða andvana börn stendur til boða að fá faglega ljósmyndun, sér að kostnaðarlausu, og varðveita þannig minninguna um börnin sín. Ljósmyndir sem þessar eru foreldrum einstaklega dýrmætar og þekkjum við sjálfar af eigin raun og úr okkar starfi hve mikilvægt er að gera börnunum okkar skil þann skamma tíma sem við höfum þau hjá okkur.
Við tókum við keflinu af Þorkeli Þorkelssyni, ljósmyndara Landspítalans, en hann hafði sinnt þessu verkefni í áraraðir. Hann var okkur að auki innan handar við undirbúning verkefnisins.
Ljósmyndunin í núverandi mynd er unnin í samstarfi við Sissu, skólastjóra Ljósmyndaskólans. Sissa hefur verið okkur stoð og stytta í undirbúningsferlinu og heldur áfram að sjá um framkvæmd verkefnisins ásamt okkur. Auk hennar störfum við með hóp faglærðra ljósmyndara, sem í góðmennsku sinni gefa okkur vinnu sína og fyrir það erum við afar þakklátar. Ljómyndararnir standa vaktina alla daga og mæta á staðinn þegar kallið berst.