Þann 15. október síðastliðinn, á alþjóðlegum degi tileinkuðum missi á meðgöngu og ungbarnamissis, opnaði ný stofa á fæðingarvakt kvennadeildar Landspítalans fyrir fjölskyldur sem eignast andvana börn. Mikil þörf hafði verið á slíkri stofu til að halda betur utan um þær fjölskyldur sem missa. Gleym mér ei innréttaði stofuna með stuðningi og velvild styrktaraðila. „Það var ekki síst fyrir stuðning okkar hlaupara úr Reykjavíkurmaraþoninu og fyrir velvild fyrirtækjanna Ilvu, Elko, Vogue, Pennans og Jysk, sem við gátum svarað kalli Kvennadeildarinnar.
Okkur fannst mikilvægt að herbergið yrði eins heimilislegt og þægilegt og hægt væri því það mun þjónusta fjölskyldur sem eru að upplifa mikla sorg. Við gátum einnig nýtt ýmislegt úr okkar reynslu þegar við innréttuðum herbergið af því við höfum verið á þeim stað sem foreldrar, sem munu nýta herbergið, eru á. Við vonum samt að sem fæstir þurfi að nýta þessa stofu,“ sagði Kolbrún Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Gleym mér ei. Nýja stofan var nefnd Bjarneyjarstofa í höfuðið á Bjarneyju Hrafnberg Hilmarsdóttur ljósmóður, en hún hefur í yfir þrjá áratugi stutt við fjölskyldur sem ganga í gegnum þessa sáru reynslu og veitt öðrum ljósmæðrum leiðsögn í erfiðum fæðingum. Hún hefur auk þess staðið fyrir stuðningshópastarfi á Landspítalanum, ásamt Dagbjörtu Eiríksdóttur, djákna. Gleym mér ei óskaði eftir hugmyndum að nafni á stofuna frá sínum skjólstæðingum sem mörg hafa notið stuðnings Bjarneyjar. Gleym mér ei styrktarfélag og fæðingarvakt kvennadeildar Landspítalans hafa átt í nánu samstarfi í yfir tíu ár. „Opnun Bjarneyjarstofu var stór stund í okkar samstarfi
Við vorum ákaflega stoltar af því að fá að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni. Eins og ljósmæður, höfum við einnig fundið fyrir þörfinni á því að fjölskyldur, sem fæða andvana börn eða missa börn í fæðingu, þurfi sérstakt herbergi út af fyrir sig. Opnun stofunnar er stór og mikilvægur áfangi í að hjálpa fjölskyldum í gífurlega erfiðum aðstæðum og mikilli sorg að skapa minningar með barni sínu í fallegu umhverfi.” sagði Hólmfríður Anna Baldursdóttir, stjórnarformaður Gleym mér ei styrktarfélags. „Það var við hæfi að stofan var formlega opnuð á þessum degi, 15. október, en þá minnumst við barnanna sem fá ekki að dafna með okkur. Tendruð eru ljós um allan heim til minningar um þau og til stuðnings við fjölskyldur sem hafa upplifað slíkan missi,“ segir Hólmfríður Anna. Gleym mér ei hélt síðan sína árlegu minningarstund í safnaðarheimili Kópavogskirkju. Á þessa fallegu stund mættu um 90 til 100 manns.