Þjónusta GME

Gleym mér ei styrktarfélag býður uppá eftirfarandi þjónustu.

Samtöl

Samtal fyrir foreldra sem hafa misst barn á meðgöngu, eftir fæðingu eða á fyrstu dögum/vikum eftir fæðingu barns.

Samtal gefur foreldrum tækifæri á að segja sína sögu sem er mikilvægt í sorgarúrvinnslunni. Það getur verið hjálplegt að ræða við einhvern sem hefur gengið í gegnum svipaða reynslu og þú ert að ganga í gegnum, einhvern sem hefur þann skilning sem einungis fæst með því að upplifa hlutina sjálfur.

Samtölin fara fram í Sorgarmiðstöð (Lífsgæðasetur Hafnarfirði) eða í gegnum fjarfund fyrir þá sem búa út á landi eða erlendis. Samtalið er foreldrum að kostnaðarlausu.

Samtalið er leitt af Þórunni Pálsdóttur hjúkrunarfræðing og ljósmóður. Hún er ein af stofnendum Gleym mér ei styrktarfélags, er í stjórn félagsins og hefur sjálf reynslu af missi á meðgöngu. Hægt er að óska eftir samtali með því að senda póst á gme@gme.is.

Jafningjastuðningur

Gleym mér ei í samstarfi við Sorgarmiðstöð býður upp á jafningjastuðning fyrir syrgjendur.

Það getur verið hjálplegt að ræða við einhvern sem hefur gengið í gegnum svipaða reynslu og þú ert að ganga í gegnum, einhvern sem hefur þann skilning sem einungis fæst með því að upplifa hlutina sjálfur. Misjafnt er hvernig stuðningurinn fer fram. Sumir velja að ræða saman í síma meðan aðrir hittast t.d á kaffihúsi eða taka saman göngutúr.

Ef þú hefur áhuga á samtali við jafningja þá getur þú óskað eftir stuðningi með því að sækja um HÉR Þau sem veita jafningjastuðning fyrir Gleym mér ei hjá Sorgarmiðstöð eru einstaklingar sem misst hafa barn á meðgöngu, í fæðingu eða á fyrstu dögum/vikum eftir fæðingu barns. Þau sem veita þennan stuðning hafa náð að vinna vel úr sínum missi og hafa fengið viðeigandi þjálfun.

Þjálfun jafningja Sorgarmiðstöðvar felur í sér að sitja tvö námskeið. Annars vegar námskeið um sorg og sorgarviðbrögð og hinsvegar námskeið sérstaklega ætlað þeim sem styðja syrgjendur. Þau sem eru í jafningjahópi Sorgarmiðstöðvar vinna eftir siðareglum félagsins og skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu en öll samtöl við syrgjendur eru trúnaðarmál..

Image
Image
Image

Markmiðið Sorgarmiðstöð er að styðja syrgjendur og þá sem vinna að velferð þeirra.

Árið 2019 var Sorgarmiðstöðin stofnuð en það er samvinnuverkefni grasrótarfélaga sem snúa að sorgarúrvinnslu. Markmiðið er að styðja syrgjendur og þá sem vinna að velferð þeirra. Sorgarmiðstöð er góðgerðafélag sem byggir tilvist sína og starfsemi á styrkjum. Sorgarmiðstöð er öllum opin, syrgjendum sem fagfólki. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu; https://sorgarmidstod.is/.

Stuðningshópastarf

12 vikur eða styttra

Sorgarmiðstöð býður upp á fræðsluerindi og opið hús fyrir foreldra/einstaklinga.

12-21 vikur

Sorgarmiðstöð býður upp á stuðningshópastarf fyrir foreldra og einstaklinga.

Stuðningshópastarfið er í sex skipti og ávallt á sama tíma á sama degi. Hægt er að skrá sig í stuðningshóp hvenær sem er og er farið af stað með hóp þegar hann er orðinn full skipaður. Það kostar ekkert að koma í stuðningshópastarf en nauðsynlegt er að skrá sig til að tryggja þátttöku. Ef báðir foreldrar ætla að mæta verða þeir báðir að skrá sig HÉR

22 vikur eða lengra

 Landspítalinn býður foreldrum/einstaklingum upp á stuðningshópastarf. Nánari upplýsingar og skráning á bjarneyh@landspitali.is
Vegna aukinnar aðsóknar óskar Sorgarmiðstöð eftir því að þau sem skrá sig í stuðingshópastarf greiði staðfestingargjald að upphæð 3.000 kr.   Staðfestingagjald er endurgoldið í formi bóka í lok hópastarfs. Staðfestingagjaldið á að greiða eftir að hópstjórar hafa haft samband.

Dæmdu ekki skýið, er skyggði á sól,
í skugga síns lögmáls það birtuna fól.
Er feykir því aftur hinn frelsandi blær,
þú fyrst getur metið, hvað sólin er skær.

E.J.