Að syrgja barnið sitt

Sérhverri þungun fylgja vonir og draumar. Við sjáum fyrir okkur nýtt líf. Við leyfum okkur að horfa fram á veginn. Við setjum okkur í þau spor að við erum að fara að eignast barn. Við leyfum okkur að hlakka til. Langoftast vakna þessar vonir og þessir draumar á þeirri stundu sem þungunin er orðin að veruleika. Þegar barn deyr í móðurkviði deyja um leið allir draumarnir, vonirnar og væntingarnar.

Eftir sitjið þið foreldrar með sorg ykkar og söknuð. Að baki missi þínum geta verið ýmsar og ólíkar ástæður. Einhverjum í umhverfi þínu kann ef til vill að finnast að því styttra sem liðið er á meðgönguna og því minna sem barnið er, þeim mun minni og léttvægari sé sorgin. Reynslan sýnir að þannig er raunveruleikinn oftast ekki. Sorgin þarf að fá að hafa sinn gang. Þar gildir einu hversu langt var liðið á meðgönguna, eða hver orsök missisins var. Sorgin er alltaf djúp. Engir tveir einstaklingar syrgja eins. Þess vegna er aldrei hægt að segja að eitt sé rétt og annað rangt þegar tilfinningar okkar eru annars vegar.

Þegar verðandi foreldrar standa frammi fyrir þeim veruleika að þurfa að kveðja barnið sitt veldur það langoftast djúpri sorg. Að fá vitneskju um að barn er dáið í móðurkviði, að þurfa ef til vill að standa frammi fyrir þeirri ákvörðun að setja fæðingu af stað til dæmis vegna alvarlegs fósturgalla er mikið áfall. Engir tveir einstaklingar bregðast þó við með sama hætti. Sorgin er alltaf einstaklingsbundin. Það á líka við um þig og maka þinn. Þið kunnið að bregðast við með ólíkum hætti. Við missi á meðgöngu eru engin viðbrögð réttari en önnur og engin tvö tilvik eru eins. Þrátt fyrir þetta fylgja sorginni margvíslegar tilfinningar sem flestir, bæði mæður og feður og aðrir aðstandendur, finna og upplifa með einum eða öðrum hætti. Flestir verða í upphafi fyrir miklu áfalli. Hugsanir eins og „þetta getur ekki verið satt, mig hlýtur að vera að dreyma“ togast á við sáran raunveruleikann. Sumir sýna strax í upphafi sterkar tilfinningar, gráta, spyrja, leita svara … Aðrir sýna minni viðbrögð. Hvort tveggja er eðlilegt. Þegar dregur úr mesta áfallinu og raunveruleikinn verður ljósari þarft þú að takast á við ýmsar tilfinningar og líðan.

Líkamleg þreyta er algeng í upphafi sorgar. Þú gætir fundið fyrir einkennum eins og andþyngslum, þörf fyrir að taka djúp andköf, hjartslætti, kviðarholsóþægindum og þyngslaverkjum í handleggjum. Matarlyst getur breyst. Þú getur átt erfitt með svefn og stundum bætast við erfiðir draumar, jafnvel martraðir. Mikilvægt er að þú fáir góðan nætursvefn. Við svefnleysi geta lyf komið að gagni. Áður fyrr voru róandi lyf mikið notuð til að lina sorgina. Mikil notkun slíkra lyfja getur tafið eðlilegan gang sorgarinnar og frestað þeim sársauka sem þú þarft að takast á við, fyrr eða síðar.

Leyfðu þér að láta í ljós tilfinningar þínar og talaðu um líðan þína við maka þinn og/ eða þína nánustu. Reynslan sýnir að það getur verið mikil hjálp fólgin í því að reyna að setja í orð tilfinningar og líðan. Nýttu þér einnig þann stuðning og þá ráðgjöf sem þér stendur til boða.

Frá bæklingum um missi.