Minningarkassi

Gleym mér ei gefur foreldrum sem missa börn á meðgöngu minningarkassa til þess að taka með sér heim.

Að missa barnið sitt á meðgöngu eða í/eftir fæðingu er eitt það erfiðasta sem foreldrar þurfa að ganga í gegnum á lífsleiðinni. Tilhlökkunin og væntingarnar um það líf sem er í vændum eru brotnar. Sá tími sem fjölskyldan fær með barninu eftir fæðingu er dýrmætur og mikilvægt að skapa eins margar minningar og hægt er. Þessar minningar er hægt að varðveita um ókomin ár til minningar um það litla líf sem aldrei varð.  

Til þess að panta minningarkassa er best að senda okkur tölvupóst á netfangið okkar gme@gme.is

Hver minningarkassi kostar um 25.000 krónur. Ef þú vilt styrkja félagið með því að kaupa minningarkassa eða gefa ákveðna upphæð uppí minningarkassa ert þú að gefa einni fjölskyldu tækifæri til að skapa minningar um barnið sitt.

Bréfið sem fylgir með hverjum kassa

Kæra fjölskylda,

Okkur þykir það mjög leitt að þið séuð að lesa þetta bréf og séuð komin í okkar hóp, foreldra sem misst hafa barnið sitt.Við þekkjum ykkar sársauka og vitum að þetta virðist óraunverulegt og óyfirstíganlegt.

Það er okkar von að þið getið notað þennan minnigarkassa til að hjálpa ykkur að takast á við sorgina með því að varðveita dýrmætar minningar með barninu ykkar.

Engar tvær manneskjur upplifa þennan missi á sama hátt en saman getið þið vonandi skapað minningar sem þið munuð ávallt eiga og munu verða ykkur afar dýrmætar.

Þær minningar munu bera ykkur í gegnum bárur sorgarinnar, þegar aldan kaffærir ykkur í sorg, sem hún mun oft gera, þá er það von okkar að þessar minningar geti haldið ykkur á floti.

Foreldrar, sem munu syrgja barn sitt út lífið, hefur reynst vel að hafa þessi ráð í huga:

Takið einn dag í einu
einn andardrátt í einu
eitt skerf í einu
einn morgun í einu.

Leyfið ykkur að syrgja á þann hátt sem ykkur hentar, ekki láta segja ykkur að sorgin hafið ákveðin farveg, hún gerir það ekki og hver og einn syrgir á sinn hátt.

Fylgið hjartanu, því þrátt fyrir að hjartað sé í molum núna, þá er það hjartað sem geymir ást ykkar til barnsin.

Myndir af bréfinu

Bréf sem fylgir hverjum minningarkassa